![]() | |||||||||||||||||||||||||||
![]() |
Söl Rannsóknir á nokkrum þáttum hreinleika og hollustu Inngangur Menn hafa notað matþörunga í aldaraðir sem fæðu, fóður, áburð og hráefni við lyfjagerð. Asíubúar, einkum Japanar, hafa hvað mest notað þá til matar og matþörungar eru þar ekki síður mikilvægir en grænmeti hjá okkur. Í Evrópu hafa matþörungar lítið verið notaðir nema þá helst söl. Einhver aukning hefur orðið á neyslu sölva í norðausturhluta Norður-Ameríku. Á Írlandi, í Danmörku og Hollandi hefur verið leyft að nota þörunga í matvælaframleiðslu. Í Grikklandi og Bandaríkjunum eru þörungar flokkaðir sem krydd. Í Frakklandi er mikill áhugi á notkun þörunga í matvælaframleiðslu, t.d. sem hráefni í súpur, drykki, osta o.s.frv. (Mabeau og Fleurence, 1993). Þar í landi var fyrir nokkrum árum gefin út reglugerð um hvernig nota megi þörunga í matvælaframleiðslu. Kröfur voru settar um hreinleika þeirra og einnig voru gefnir út staðlar fyrir tæknilega eiginleika sem varða lykt, lit og seigjumyndun. Þótt nýting sölva eigi sér aldagamlar hefðir hérlendis, var svo komið fyrir nokkrum áratugum að aðeins sárafáir nýttu þessi fornu hlunnindi. Á undanförnum árum hefur áhugi manna á sölvum verið að glæðast, enda innanlandsmarkaður talsverður og vaxandi, auk þess sem útflutningur er hafinn. Sölin hafa fyrst og fremst verið sólþurrkuð og hreinsuð og seld þannig beint til neyslu, auk þess sem hafin er tilraunavinnsla á þeim í töfluformi. Með vaxandi markaðssetningu, ekki hvað síst með útflutning í huga, er brýnt að afla meiri yfirlitsupplýsinga um efnainnihald íslenskra sölva, um hreinleika þeirra og hvort einhverrar geislavirkni gætir í þeim, en markaðurinn gerir sífellt meiri kröfur um að vita um innihald þeirra og hollustu. Ýmsir erlendir aðilar spyrja gjarnan fyrst af öllu hversu langt frá kjarnorkuveri sölin séu tekin og hvort þau séu laus við örveru- og þungmálmamengun. Til þess að geta svarað ofangreindum atriðum að einhverju leyti, var sumarið 1994 safnað sýnum af átta stöðum á landinu á tímabilinu frá miðjum ágúst til ágústloka. Sýnin voru sólþurrkuð og þannig send til greiningar. Sýnastærð frá hverjum stað var um tvö kíló. Skipulagning og sýnataka Sýnatökustaðir voru: Vestmannaeyjar, Stokkseyri, Hraun í Ölfusi, Norðurkot á Reykjanesi, Bakki á Kjalarnesi, Traðir á Mýrum, Innri-Fagridalur í Saurbæ og Auðshaugur á Hjarðarnesi. Mæld voru prótein, fita, trefjaefni, þurrefni, aska og fimm steinefni; kalk, magníum, kalíum, natríum og fosfór, fjórir þungmálmar; kadmíum, kvikasilfur, blý og arsenik, C-vítamín og nokkrar tegundir gerla í öllum sýnunum. Geislavirkni var mæld í fjórum sýnum. Flestar mælingar voru gerðar á Rannsóknastofnun landbúnaðarins nema C-vítamínmælingin (Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins), geislavirkni (Geislavarnir ríkisins) og gerlamælingarnar (Hollustuvernd ríkisins). Söl fyrr á tímum Söl (Palmaria palmata) er sú tegund sæþörunga sem hefur verið hvað mikilvægust til manneldis hérlendis, einkum þó fyrr á öldum, enda voru þau eftirsótt til matar. Finna má í heimildum dæmi um sölvaneyslu allt aftur til fyrstu byggðar í landinu og má minna á frásögn Egilssögu í því sambandi. Um mikilvægi sölvatekju fyrr á öldum má nefna að ýmsar jarðir án sölvafjöru áttu ítök í sölvafjörum, sölvafjörur voru gjaldgengar við ítakaskipti, þær voru stundum leigðar öðrum og bændur inn til landsins sóttu oft um langan veg til að kaupa söl. Auk þess að vera góð til matar þóttu söl góð til að lækna ýmsa kvilla, en lækningarmáttur þeirra kann að hafa stafað af því að hátt næringargildi þeirra kom sér vel í fábreyttara og minna úrvali af fæðu en síðar varð. Þá voru söl einnig nýtt sem skepnufóður, bæði til gjafar og beitar. Í “Íslenskum sjávarháttum” eftir Lúðvík Kristjánsson má finna gríðarlegan fróðleik um sölvanytjar á fyrri öldum. Söl nú á tímum Neysla sölva dróst mjög mikið saman eftir að kom fram á þessa öld og lagðist víða alveg af. Áhugi á þeim hefur hins vegar vaknað á ný á allra síðustu árum, ekki hvað síst vegna þess að þau þykja afar holl og koma auk þess beint úr ómengaðri náttúru. Flestar svokallaðar heilsubúðir versla núorðið með söl, þau eru á boðstólnum í mörgum matvöruverslunum og komnir eru fram sérstakir dreifingaraðilar sem dreifa til smásala. Fyrst og fremst er sölvanna neytt sem nokkurs konar viðbótarfæðu (snakks), en í auknum mæli sem sjálfsagðs þáttar í fjölbreyttni við matargerð eða til skreytingar á mat, bæði á veitingahúsum og í heimahúsum. Full ástæða væri til að gefa út rit með uppskriftum og nýtingarmöguleikum á sölvum til matargerðar. Söl - útbreiðsla og magn Söl vaxa í fjörumálinu neðan við þangbeltið og niður í þarabeltið, eða á beltinu milli smástraumsfjörumáls og stórstraumsfjörumáls. Þau eru algeng um land allt, þótt mun minna sé af þeim í nýtanlegum mæli við Norður- og Austurland heldur en við Suðvesturland. Þessu veldur trúlega fyrst og fremst miklu meiri sjávarfallamunur við Suðvesturland. Stærstu og samfelldustu sölvafjörurnar eru taldar vera í Árnessýslu og Saurbæ í Dölum. Mjög erfitt er að áætla hversu mikil sölvatekja gæti orðið, því hvort tveggja er að ekki er vitað um mögulegt heildarmagn og sums staðar eru sölvafjörur lítt aðgengilegar. Í Handbók um hlunnindajarðir á Íslandi eftir Lárus Ág. Gíslason (útg.1982) er ekkert minnst á sölvatekju, en bók Lárusar byggir á fasteignamati frá árunum 1932, 1942 og 1970. Hvort sölvatekja á þessu tímabili er að mestu horfin eða hvort aðrar ástæður ráða því að skráningu vantar skal ósagt látið. Hins vegar má nefna að Árni Magnússon og Páll Vídalín (um 1700), telja að 270 lögbýli hafi einhverja sölvatekju. Í Íslenskum sjávarháttum greinir Lúðvík Kristjánsson frá því að um 1800 hafi árlega fengist 721 vætt af þurrsölvum í Árnessýslu (29.000 kg) og að verðmæti þeirra hafi samsvarað 56 kýrverðum, en sölvasvæðin í Árnessýslu komu næst á eftir Saurbæjarfjöru að stærð. Í könnun sem Hafrannsóknastofnun gerði á Saurbæjarfjöru á árinu 1978 kemur fram að árleg sölvatekja á um 6 ha svæði við Sölvatanga geti verið um 120 - 360 tonn (votvigt), sem gæti samsvarað 30 - 90 tonnum af þurrkuðum sölvum. Þess má geta að víðar í Saurbænum eru sölvafjörur þótt þessi sé sú langstærsta. Niðurstöður Erlendar mælingar Erlendis hafa miklar efnamælingar verið gerðar á sölvum síðustu áratugina, sem sýnir að áhugi á þeim er og hefur verið mikill. Í yfirlitsgrein um mælingar á sölvum (Morgan et al., 1980) kemur fram að niðurstöður eru á mjög breiðu bili. Í þurrum sölvum mældist aska 12-37%, prótein 8-35%, kolvetni með trefjaefnum 38-74% og fita 0,2-3,8%. Munur á mæligildum er mikill og eru skýringar á því. Fyrst og fremst eru það mæliaðferðir sem geta verið mismunandi og gefið ólíkar niðurstöður. Einnig hafa ýmsir umhverfisþættir og tímasetning sýnatöku áhrif á næringarinnihald sölva. Þetta kemur fram í próteingildi sölva sem er breytilegt eftir árstíma og er hærra á veturna og vorin en lægra á sumrin og haustin. Söl tilheyra ættinni rauðþörungar en þeir eru að jafnaði próteinríkari en brúnþörungar. Próteingildi sölva er því frekar hátt og ekki frábrugðið grænmeti með gott próteingildi (Mabeau og Fleurence, 1993). Í yfirlitsgreininni kemur fram að helstu steinefni sölva eru kalíum, klór og natríum. Söl eru einnig rík af járni, magnesíumi, kalki og joði og innihalda þónokkuð mikið af A-vítamíni á formi karótins. C-vítamín í ferskum sölvum er verulegt og sæmilega mikið er af ýmsum B-vítamínum eins og þíamín (B1), ríbóflavín (B2) og níasín, samanborið við önnur matvæli. Rannsóknaniðurstöður Næringarefni Niðurstöður efnamælinga úr þessari rannsókn á þurrkuðum sölvum eru sýndar í 1. töflu Þar kemur fram mikil breytileiki í mæligildum. Próteinmagn liggur á bilinu frá tæplega 6 í 19%. Fita mælist á bilinu 0,1-0,3% sem er frekar lágt. Kolvetni er 14,8-37,7% en það er ekki mælt heldur reiknað út sem þurrefni mínus aska, prótein, fita og trefjaefni. Trefjaefni er um 38-46% sem er mjög mikið samanborið við grænmeti. Trefjaefni fyrirfinnast eingöngu í jurtaríkinu og eru efni sem efnahvatar mannsins vinna ekki á. Fram hefur komið að trefjaefni gegna mikilvægu hlutverki til að varðveita góða heilsu. Í franskri rannsókn þar sem 11 tegundir matþörunga voru mældir, kom í ljós að trefjainnihald var á bilinu 33-75% af þurrvikt (Lahaye, 1991). Söl voru ekki tekin með í þeirri úttekt. Magnesíum mælist í sýnunum 0,19-0,36% sem er lægra en í erlendum heimildum þar sem það mælist 0,39-0,50%. Fosfór er á bilinu 0,23-0,41% en hefur mælst erlendis 0,36% sem er í góðu samræmi. Kalíum og natríum eru í miklu magni í sölvum. Í þessari rannsókn mælist kalíum 3,82-8,26% og natríum 1,19-2,54%. Í erlendum mælingum (Mabeau et al. 1992) hefur kalíum í sölum mælst 7,0-9,0% og natríum 1,7-2,5%. Kalkmagn í sölum er 0,1 - 1,0 % í flestum sýnum. Þó er eitt sýni sem sker sig verulega frá öðrum sýnum en það eru söl frá Auðshaugi með 2,3% kalk. Þessi söl innihéldu sjáanlega mikið af kalkþörungum sem skekkja verulega niðurstöður kalks í sölvunum. Í erlendum heimildum hefur kalk mælst 0,02-1,3%. Út frá niðurstöðum steinefnamagns eru íslensk söl svipuð erlendum sölvum. Ekkert C-vítamín mældist í sýnunum sem geymd voru í 6 mánuði fyrir mælingu. Sýnin voru að mestu leyti þurrkuð en við það eyðileggst C-vítamínið. Gera má ráð fyrir að C-vítamín hafi verið fyrir hendi í ferskum sölvum eins og fram hefur komið í erlendum rannsóknum. Þessar niðurstöður sýna þó að þurrkuð söl innihalda ekkert C-vítamín eftir 6 mánaða geymslu við stofuhita. Geislavirkni Geislavirk efni eru hluti af náttúrlegu umhverfi okkar. Hlutur þeirra í náttúrunni hefur aukist þó nokkuð undanfarna áratugi við beitingu kjarnorku til orkuframleiðslu og vopna. Geislavirkni er mæld með einingunni Becquerel, Bq. Geislavirkni var mæld í fjórum sölvasýnum, frá Hrauni, Auðshaugi, Norðurkoti og Stokkseyri. Sýnin voru valin með tilliti til staðsetningar til að fá sem besta mynd af dreifingu geislavirkni á landinu. Í öllum sýnunum mældist innan við 1 Bq í 1 kg af þurrkuðum sölvum, sem er mjög lágt. Víða í erlendum viðskiptastöðlum fyrir matvæli eru gildi á bilinu 370-1000 Bq/kg leyfð hámarksgildi (Geislavarnir ríkisins, 1995). Í lokaskýrslu starfshóps um mengunarmælingar (Magnús Jóhannesson o.fl. 1995) kemur fram að styrkur geislavirkra efna í sjó er mjög lítill hér við land og sá lægsti sem mælist á hafsvæðum Norður-Atlanshafsins. Gerlar Gerlaflóra við sjávarsíðuna er mjög breytileg milli staða. Gerlar eru hluti af náttúrulegu sjávarumhverfi og við þá bætast þeir gerlar sem eru af mannavöldum, t.d. úr skólpi og úrgangi frá iðnaði. Þessir gerlar hafa yfirleitt hærra kjörhitastig en gerlar sem koma upprunalega úr sjó. Til að kanna mengun af völdum manna voru gerlar ræktaðir við hærra hitastig í öllum sölvasýnunum. Mældur var heildargerlafjöldi við 30°C ræktun, kólígerlafjöldi við 37°C, saurkólígerlafjöldi við 44,5°C og gerð salmonellaprófun. Öll sýnin voru send strax eftir tínslu í gerlarannsókn. Heildargerlafjöldi í 1 g af sölvum við 30°C ræktun reyndist undir 2000 í flestum sýnum nema frá Norðurkoti (2100 gerlar/g), Tröðum (2.200.000 gerlar/g) og Auðshaugi (4.200 gerlar/g). Kólígerlafjöldi í 1 g við 37°C og saurkólígerlafjöldi í 1 g við 44,5°C var innan við 10 í öllum sýnunum. Salmonellaprófun reyndist neikvæð í öllum sýnunum. Niðurstöður gerlamælinganna sýndu að gerlamagn var innan leyfilegra marka og mat Hollustuvernd ríkisins sölin frá öllum bæjum nægjanlega hrein til sölu. Þungmálmar Þungmálmar fyrirfinnast í hafinu í mjög lágum styrk. Þungmálmar berast um yfirborð jarðar og í hafinu eftir ýmsum leiðum. Margir þungmálmar eru nauðsynlegir starfsemi lífvera en geta haft eiturverkan verði styrkur þeirra óeðlilega hár. Blý, kvikasilfur og kadmíum gegna engu þekktu hlutverki í lífríkinu. Þessir málmar geta verið skaðlegir mönnum og lífríki, jafnvel við lágan styrk í fæðu og umhverfi. Blý, kadmíum og kvikasilfur geta borist út í umhverfið úr ýmsum iðnaði. Töluvert magn málma getur borist til sjávar með náttúrulegum ferlum. Styrkur margra málma í ám eykst verulega í kringum eldgos. Hér á landi hafa rannsóknir bent til að meira sé í umhverfinu af ýmsum þungmálmum en víða annars staðar á Norðurlöndum, t.d. kadmíum og króm (Magnús Jóhannesson o.fl. 1995). Styrkur blýs og kvikasilfurs er mjög lágur í seti, og styrkurinn fylgir magni jurta- og dýraleifa í setinu. Magn kadmíums í kræklingi og þorsklifur hefur mælst nokkuð hátt og benda líkur til að þessi háu gildi stafi einkum af breytilegu fæðuframboði eftir árum og árstíðum, auk sérstakra haf- og jarðfræðilegra aðstæðna hér við land. Náttúruleg ferli geta því verið mjög breytileg frá einum stað til annars. Í þessari rannsókn voru þungmálmarnir blý (Pb), kadmíum (Cd), kvikasilfur (Hg) og arsenik (As) mældir í sölvum. Blýmagn reyndist vera 0,03-0,22 mg/kg, kadmíummagn 0,44-1,94 mg/kg, kvikasilfursmagn var ekki mælanlegt þar sem það var undir greiningarmörkum mælitækisins sem er 0,008 mg/kg og arseniksmagn 0,59-1,38 mg/kg (2. tafla). Hámarksgildi fyrir leyfða þungmálma í Frakklandi er í töflu 3. Við samanburð við niðurstöður okkar sjáum við að blý, kadmíum og arsenik eru vel undir þessum gildum, en kadmíummagn er of hátt í sölvum frá flestum stöðum á landinu nema frá Hrauni. Hugsanlega má skýra hátt kadmíuminnihald sölva hérlendis með eldvirkni þeirri sem við búum við. 1. tafla. Prósent næringarefna og steinefna í þurrkuðum sölvum (100% þe.). Sýni Prót. Fita Kolv. Kolv. Trefj. Aska Ca Mg K Na P án trefja +trefjar Stokkseyri 18,8 0,1 14,8 60,3 45,5 20,8 0,14 0,31 7,20 2,19 0,36 Hraun 17,5 0,2 28,2 68,4 40,2 14,0 0,23 0,19 5,20 1,19 0,41 Norðurkot 17,5 0,2 17,2 57,4 40,2 25,0 0,97 0,36 8,26 2,54 0,62 Bakki 14,1 0,1 22,8 65,7 42,9 20,0 0,19 0,23 7,19 1,68 0,29 Traðir 13,1 0,2 26,8 70,3 43,5 16,4 0,55 0,32 6,10 2,15 0,34 I-Fagridal. 5,9 0,1 37,7 80,6 42,9 13,4 0,51 0,21 3,82 1,23 0,23 Auðsh. 8,6 0,2 34,9 73,2 38,3 18,0 2,34 0,25 4,41 1,62 0,23 Vestm. 17,7 0,3 26,1 67,9 41,8 14,1 0,11 0,21 4,56 1,61 0,32 Meðaltal 14,1 0,2 26,1 68,0 41,9 17,7 0,63 0,26 5,84 1,78 0,35 2. tafla. Magn þungmálma, mg í 1 kg af þurrkuðum sölvum (100% þe.). mg/kg Sýni Pb Cd Hg As Stokkseyri 0,03 0,65 e.m.* 1,38 Hraun 0,14 0,44 e.m. 1,05 Norðurkot 0,20 0,62 e.m. 1,08 Bakki 0,04 0,79 e.m. 0,96 Traðir 0,19 0,64 e.m. 0,88 I-Fagridal. 0,17 0,87 e.m. 1,12 Auðsh. 0,22 1,49 e.m. 0,59 Vestm. 0,14 1,94 e.m. 0,72 Meðaltal 0,13 0,93 0,97 *e.m. = ekki mælanlegt 3. tafla. Leyfilegt hámarksgildi þungmálma í ferskum og þurrkuðum sölvum í Frakklandi. Aðskotaefni (mg/kg í þurrum sölum) Ólífrænt As 3,0 Pb 5,0 Cd 0,5 Hg 0,1 Í 4. töflu eru niðurstöðurnar úr 1. töflu umreiknaðar yfir í 80,8% þurrefni, en á því formi eru sölin í neytendapakkningum (tilbúin til neyslu). 4. tafla. Prósent næringarefna og steinefna og orkugildi í unnum sölvum (80,8% þe.). Sýni Prót. Fita Kolv. Trefj. Aska Vatn Ca Mg K Na P kJ Kkal Stokkseyri 15,2 0,1 12,0 36,8 16,8 19,2 0,11 0,25 5,81 1,78 0,29 459 110 Hraun 14,1 0,1 22,8 32,5 11,3 19,2 0,19 0,15 4,21 0,96 0,33 621 149 Norðurkot 14,1 0,1 13,9 32,5 20,2 19,2 0,78 0,29 6,67 2,05 0,50 472 113 Bakki 11,4 0,1 18,4 34,7 16,2 19,2 0,15 0,19 5,81 1,36 0,23 504 120 Traðir 10,6 0,2 21,7 35,1 13,3 19,2 0,45 0,26 4,93 1,74 0,27 546 130 I-Fagridal. 4,8 0,1 30,5 34,6 10,8 19,2 0,41 0,18 3,10 0,99 0,19 594 142 Auðsh. 6,9 0,2 28,2 30,9 14,6 19,2 1,89 0,20 3,57 1,31 0,18 595 142 Vestm. 14,3 0,3 21,1 33,8 11,4 19,2 0,09 0,17 3,69 1,30 0,26 602 144 Meðaltal 11,4 0,2 21,1 33,9 14,3 19,2 0,15 0,21 4,72 1,44 0,28 549 131 Lokaorð Út frá þessum mælinganiðurstöðum má draga þá ályktun að söl eru næringarrík og tiltölulega hrein frá náttúrunnar hendi. Þau innihalda ríkulegt magn af próteinum, trefjaefnum, kolvetnum og vissum steinefnum. Þau eru fitusnauð sem er kostur í nútímaþjóðfélagi þar sem fituneysla er almennt of mikil. Samkvæmt erlendum heimildum innihalda þau ríkulegt úrval af A og B-vítamínum. Hreinleiki þeirra endurspeglast í litlu gerlamagni og geislavirkni mælist hverfandi lítil. Magn þungmálmanna blýs, kvikasilfurs og arseniks er í mjög lítið, en þungmálmurinn kadmíum er í dálitlum mæli. Þegar borin eru saman leyfð hámarksgildi í Frakklandi fyrir þungmálma kemur í ljós að öll sölvasýni nema eitt innihalda of hátt kadmíumgildi. Þessi niðurstaða kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Fram hefur komið úr öðrum rannsóknum að kadmíumstyrkur er mjög hár í mosa hér á landi og sérstaklega á þeim stöðum þar sem eldvirkni er mikil. Það er ekki óeðlilegt að kadmíum berist til sjávar og eigi greiða leið í sjávargróður við strendur landsins. Það er því mikilvægt að fylgst sé vel með þessum þætti í framtíðinni. Þess skal getið að hér var einungis um nokkurs konar yfirlitskönnun að ræða, niðurstöðurnar eiga einungis við á þeim stað og þeim tíma sem viðkomandi sýni voru tekin, en geta þó vonandi verið góð vísbending um hvers er að vænta varðandi sölin. Niðurstöðurnar sem fengust eru með þeim hætti að þær ættu að gagnast sölvabændum vel varðandi útflutning og aðra markaðssetningu á sölvum. Mikilvægt er hins vegar að enn víðtækari rannsóknir verði gerðar á sölvum á næstunni. Þeim stofnunum sem lögðu verkefninu lið er þakkað fyrir veitta aðstoð. Bændum á viðkomandi jörðum er þökkuð samvinnan og fyrirhöfn og aðstoð við öflun sýna. Framleiðnisjóður landbúnaðarins kostaði verulegan hluta verksins sem sérstaklega ber að þakka, en fjárstuðningur sjóðsins gerði það kleyft að framkvæma þessar rannsóknir. Heimildir: Geislavarnir ríkisins, 1995. Persónulegar upplýsingar. Karl Gunnarsson, 1978 og 1982. Skýrslur (2) um könnun á sölvafjörum í Saurbæ. Óbirt, 3 og 6 bls. Lárus Ág. Gíslason, 1982. Handbók um hlunnindajarðir á Íslandi, 334 bls Lúðvík Kristjánsson, 1980. Íslenskir sjávarhættir, 1. bindi, bls 37-92. Mabeau, S. and Fleurence, J. 1993. Seaweed in food products: biochemical and nutritional aspects. Trends in Food Science & Technology, vol. 4, bls. 103-107. Mabeau, S., Cavaloc, E., Fleurence, J. and La Haye, M. 1992. New seaweed based ingredients for the food industry. International Food Ingredients, 3, 38-45. Magnús Jóhannesson, Jón Ólafsson, Sigurður M. Magnússon, Davíð Egilsson, Steinþór Sigurðsson, Guðjón Atli Auðunsson og Stefán Einarsson, 1995: Mengunarmælingar í sjó við Ísland. Lokaskýrsla. Gefið út af Umhverfisráðuneytinu. 137 s. Morgan, K.C., Jeffrey, L.C. and Simpson, F.J. 1980. Review of Chemical Constitutents of the Red Alga Palmaria palmata (Dulse). Economic Botany, 34(1), 27-50.
| ||||||||||||||||||||||||||
![]() | |||||||||||||||||||||||||||
IS-107 Reykjavík,, sími 563 0300 uppl@bi.bondi.is |