Höfundur:Netfang:Vefsíða:
Lárus G. Birgisson

Útgáfuár:Titill:Rit:
1994Forystufé á ÍslandiHandrit

Útgefandi:Útgáfustaður:Árgangur:Tölublað:Bls.:
Bændasamtök Íslands

    Forystufé á Íslandi

    1. Inngangur
    Forystufé hefur verið órjúfanlegur hluti af sauðfjárhaldi Íslendinga allt frá upphafi byggðar hér á landi. Með harðfylgi sínu, vitsmunum og einstökum forystueiginleikum hefur það margsannað gildi sitt og not þó sérstaklega við beitarbúskap fyrri tíma.

    Fullvíst er talið að fé með hegðunarmynstur íslenska forystufjárins sé hvergi þekkt í heiminum nú á dögum nema á Íslandi. Þessi eiginleiki er því afar fágætur. Sú vitneskja ásamt því að forystufé hefur farið fækkandi með breyttum búskaparháttum, áhugaverð hegðun þess og hugsanleg útrýmingarhætta var m.a. ástæðan fyrir tilurð þessa verkefnis. Þessi grein er hér birtist er byggð á aðalritgerð höfundar við Búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri árið 1993 og vísast til hennar með heimildir og tilvitnanir.

    Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands leiðbeindi um framgang verkefnisins en gagnasöfnun fór fram með þeim hætti að send voru út bréf í öll sauðfjárræktarfélög í landinu og forsvarsmenn þeirra beðnir að safna tilteknum upplýsingum hver á sínu félagssvæði. Fyrirspurn um forystufé hefði því átt að berast flestum fjáreigendum í landinu. Umbeðin atriði voru m.a. bú, nafn, kyn, fæðingarár, litur, horn, faðir, móðir, hreinrækt/blendingur, auk upplýsinga um uppruna forystufjár á svæðinu, einkenni, útlit og hegðun. Með þessum gögnum er gerð grein fyrir dreifingu forystufjárins, uppruna og ræktun í landinu auk rannsókna og tíðni á umbeðnum atriðum. Jafnframt er sögulegum þætti gerð skil og fjallað um framtíð forystufjárins og hvernig varðveislu þess verði best við komið.

    Upplýsingarnar skiluðu sér misjafnlega vel og tók það um eitt ár að ná þeim saman þannig að í sumum tilfellum er um ásetning fyrir árið 1991/'92 að ræða en annars ásetning 1992/'93. Gert er ráð fyrir að enginn verulegur munur sé á milli ára í fóðrafénaði og að eðlileg endurnýjun hafi átt sér stað þannig að tölurnar sitt hvort árið eru sambærilegar. Skráning er óháð aldri þannig að lömb og fullorðið fé er ekki aðskilið.

    Forystufé var skoðað, aðallega í Þingeyjarsýslum og Borgarfirði, auk þess sem rætt var við bændur og fjölmarga aðra.

    2. Fyrri umfjöllun
    Engar rannsóknir hafa farið fram á forystufé en ómetanlegar sagnir hafa verið skráðar um það, sem eru aðallega frásagnir af dug þess, vitsmunum og harðfylgi. Ýmsir hafa orðið til að stinga niður penna og segja frá eftirminnilegum forystukindum en á engan er hallað þó að nefndur sé Ásgeir Jónsson frá Gottorp en hann safnaði og skráði frásagnir af forystufé sem Búnaðarfélag Íslands gaf út á bók árið 1953 sem heitir "Forystufé". Í sögum þeirrar bókar er að finna þann mesta fróðleik og umfjöllun um atferli forystufjár sem nokkru sinni hefur verið ritaður í heiminum til þessa.

    Erlendis hafa verið gerðar rannsóknir á atferli sauðfjár sem gengur frjálst í haga en þar sýndi það sig að sá einstaklingur sem hafði frumkvæði að því að færa sig um set var sjálfstæðari og ekki eins hjarðleitinn og annað fé í hópnum og því oftar á beit fjær honum. Þessir einstaklingar höfðu forystu um að hópurinn færðist um set því aðrir í hópnum fylgdu á eftir. Þessi niðurstaða er á engan hátt í líkingu við hegðun íslenska forystufjárins heldur einungis sambærileg við hegðun "lata" fjárins og þó ekki, því að íslenska féð er almennt sjálfstætt þó svo að það vilji vita af nálægð við annað fé. (Notuð er málvenja Þingeyinga og annað fé en forystufé kallað latt).

    Gerðar hafa verið tilraunir á Nýja Sjálandi með að temja fé til forystu. Stefnt var að því að hafa það til hagræðis, t.d. við rekstur á milli beitarhólfa, og við rag fjár við slátrun. Aðallega var um sauði að ræða og voru þeir þjálfaðir í ákveðnum verkefnum, t.d. að leiða hóp ákveðna leið. Árangur af þessari þjálfun varð mælanlegur og gæti vel nýst til þeirra verkefna sem ætlast var til en þá með nokkurri og reglulegri þjálfun. Ekki er hægt að segja að þessir forystusauðir hafi þá eiginleika til að bera sem íslenska forystuféð hefur, enda eru þeir meðfæddir og þjálfun þess kallar því eiginleikann betur fram.

    Til áréttingar um það, að hvergi sé til forystufé í öðrum sauðfjárkynjum skal nefna ritið "Sheep and Man" sem fjallar um sauðfjárrækt og sauðfjárkyn í heiminum. Þar er hvergi minnst á forystufé annars staðar. Vart er í öðrum heimildum til meiri fróðleikur um þetta efni allt frá fornu fari, því að mikið er vitnað í fornar heimildir í ritinu og höfundurinn, Michael Ryder, var mjög víðförull.

    3. Sögulegt yfirlit

    3.1. Uppruni forystufjár.
    Forystufé hefur verið þekkt erlendis til forna og til þess er vitnað í Biblíunni (Míka 2.13), en þar segir.

    "Forystusauðurinn fer fyrir þeim, þeir ryðjast fram, fara í gegnum hliðið og halda út um það, og konungur þeirra fer fyrir þeim og Drottinn er í broddi fylkingar þeirra".

    Í þessari tilvitnun er ekki verið að fjalla um fé heldur hvernig fólkið skuli haga sér og leiðtoganum þá líkt við forystusauð. Þetta sýnir þó að forystufé hefur verið þekkt úr því að það er notað til samlíkingar og eftirbreytni fyrir menn. Ekki skal fullyrt hér að um sams konar forystueiginleika og við þekkjum hafi verið að ræða enda langsótt því að Spádómsbók Míka er kennd við samnefndann spámann sem var uppi á 8. öld fyrir Kristsburð.

    Íslenska féð er grein af svokölluðu stuttrófufé, sem áður fyrr var algengt um alla Norðvestur-Evrópu, en er nú aðeins til utan Íslands í litlum mæli í Rússlandi, Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Orkneyjum, Hjaltlandi og Færeyjum.

    3.2. Saga forystufjár og gildi þess í íslenskri sauðfjárrækt.
    Hvað sem nákvæmum uppruna líður hefur forystuféð átt sterkan þátt í framvindu íslenska sauðfjárins og saga þess verið samofin sögu sauðfjárræktar í landinu frá upphafi landnáms norrænna manna. Í Laxdælu (24. kafla) er sagt frá því er Ólafur pá flytur búferlum frá Goddastöðum að Hjarðarholti árið 960 og rekur þangað búfé sitt.

    "Óláfr skipar nú til; lætr reka undan fram sauðfé þat, er skjarrast var; þá fór búsmali þar næst. Síðan váru rekin geldneyti; klyfjahross fóru í síðara lagi. Svá var skipat mönnum með fé þessu, at þat skyldi engan krók rísta. Var þá ferðarbroddrinn kominn á þenna bæ enn nýja, er Óláfr reið ór garði af Goddastöðum, ok var hvergi hlið á milli".

    Vegalengdin á milli bæjanna er 2100 faðmar, (3,507 km), og er því svona lopi aðeins spunninn með góðu forystufé enda rak hann á undan sauðfé það er "skjarrast" var þ.e. styggast og framsæknast.

    Í Sögu Víga-Styrs og Heiðarvíga sem gerist um og eftir aldamótin 1000 er nafngreindur forystusauðurinn "Fleygir" en þar segir er þeim verður sundurorða Barða Guðmundssyni og Þórði Melrakka. Svo til að refsa Þórði, þá skipar Barði honum til erfiðra verka daginn eftir, en meðal þeirra var eins og segir í sögunni; "en þú skalt fara á morgin at sækja forustugelding várn, er heitir Fleygir, því at geldingar eru gengnir ór afrétt ok heim í haga"; - "því vísaði hann honum til þess, at hann var verra at henda, en aðra sauði ok var hann skjótari".

    Verðlag á sauðfé í kúgildum var árið 1100 hér um bil það sama, sem síðar hélst um margar aldir. Í Jónsbók sem var lögtekin á Alþingi 1281 eru forystusauðir taldir metfé, en það þýddi, að þeir voru í hærra verði en aðrar kindur. Metfé áttu 6 skynsamir menn að virða til verðs, þrír frá kaupanda og þrír frá seljanda.

    Að forystusauðirnir skyldu kallaðir metfé lýsir best því notagildi og virðingu sem þeir hlutu við beitarbúskap þeirra tíma enda héldu þeir því verðgildi og er það áréttað í Búalögum sem er íslenskur lagabálkur forn að stofni sem hefur að geyma ákvæði um verðlag, mælieiningar og hvers konar venjur í viðskiptum og landbúnaði.

    Í misjöfnu árferði í aldanna rás urðu kynbætur á sauðfénu, aðallega á náttúruúrvali, því hefur forystueiginleikinn haldist við og jafnvel eflst hér á landi vegna þeirrar þarfar sem var fyrir hann við beitarbúskapinn.

    Áður voru sauðir oft notaðir sem forystukindur. Þeir voru duglegir, kjarkmiklir og áræðnir. Góður forystusauður fór á undan og fann bestu leiðina yfir svellað land eða hvers kyns torfærur, þegar rekið var til beitar á veturna. Hann fór á undan í ófærð og lagði slóð fyrir féð, þar sem snjórinn var grynnstur. Hann teygði á rekstri í ófærð, svo að féð spann lopann í sporaslóð. Hann fór á undan fé í hríðum og hélt réttri leið, og hann hikaði ekki við að leggja út í vatnsföll, þegar reka þurfti fé yfir þau.

    Sumar forystukindur voru veðurglöggar og fóru síðastar frá húsi, þegar féð var látið út á veturna, ef hríð var í vændum, en annars fyrstar. Stundum komu forystukindur heim að húsum með allt féð, áður en stórhríð skall á, en stundum héldu þær stórum fjárhóp í hnapp í stórhríð með því að hlaupa sífellt í kringum hópinn og sjá til þess, að engin kind hrektist frá honum. Í göngum uppi á hálendinu kom það fyrir, ef gangnamenn fengu dimmar hríðar og voru ekki vissir að rata, að þeir treystu á forystuféð og létu það ráða ferðinni.

    Margar merkilegar sögur um afrek einstakra forystukinda eru til en fáar jafnast þó á við söguna af Svínavatns-Svarti frá Svínavatni í A-Húnavatnssýslu. Í þessari sögu segir frá ótrúlegri ratvísi, harðfylgni og vitsmunum hans þegar gangnamenn voru orðnir villtir í illviðri á Stórasandi norðan Langjökuls með fjárhóp sinn og fólu Svarti forsjá manna og skepna og ekki brást hann því trausti sem honum var sýnt og skilaði öllum á áfangastað.

    Dæmi eru um að forystusauðir væru notaðir í eftirleitum til að hægara væri að nálgast eftirlegukindur og koma þeim saman. Frægastan má í þessu sambandi nefna Eitil Fjalla-Bensa (Benedikts Sigurjónssonar), en hann stundaði eftirleitir á öræfum í Þingeyjasýslum þó aðallega á Mývatnsöræfum frá því fyrir aldamótin 1900 og fram til 1940 er hann fór í sínar síðustu eftirleitir 64 ára gamall. Eitill hans var fæddur 1923 og varð 10 vetra gamall. Hann var svo vitur, að hann elti Bensa eins og rakki, en fór á undan og ruddi slóð, ef Bensi benti honum í ákveðna átt. Ljóst má því vera hversu notin fyrir gott forystufé voru mikil enda var það oft gert gamalt og má í því sambandi nefna að í ferðabók Ólafar Ólavíusar segir að góðir forystusauðir séu í svo miklum metum á Melrakkasléttu að menn láti þá verða 13-14 vetra gamla og gefi þeim saxað hey og þess háttar þegar þeir eru orðnir tannlausir.

    Forystuféð hefur orðið tilefni margra sagna sem lifa ekki sýst í þjóðsögum okkar Íslendinga. Samkvæmt þeim á þetta fé að vera upprunnið í Þingeyjarsýslum og komið frá huldufólki. Í hinum merku þjóðsagnasöfnum þeirra Jóns Árnasonar og Ólafs Davíðssonar eru þeir forystusauðir sem sagt er frá einungis gráir og mórauðir. Þó að þjóðsögur séu oft ýkjublandnar er oftast í þeim einhver sannleikskjarni. Svo yrkir Þormóður í Gvendareyjum um Móra sinn er honum þótti ekki einleikið að Móri heimtist ekki af fjalli 7 vetra.

    "Mótgangsóra mergðin stinn
    mér vill klóra um bakið,
    illa fór hann Móri minn
    mikli stóri sauðurinn".

    Eftir kirkju skömmu síðar spyr Þormóður samsveitunga sína eftir Móra og segir, "Jarmaðu nú Móri minn hvar sem þú ert" og gall þá við jarm úr einum.

    Þó svo að forystuféð njóti virðingar og hafi verið lofað hér að framan, getur það oft verið erfitt í umgengni, t.d. í göngum, vegna sjálfstæðis síns og kvikleika. Í húsi á það stundum til að skeyta ekki um jötur og milligerðir.

    Forystufé er öðru fé hættara við slysum vegna framsækni þess og leiðir jafnvel annað fé í hættur. Árið 1976 varð mikill fjárskaði við Stafnsrétt í Svartárdal A-Hún., er á fimmta hundrað fjár fórst í nærliggjandi á en talið var að forystufé hafi þar verið fyrst til að ana út í straumvatnið. Sama átti sér stað við Stóru-Laxá á Suðurlandi fyrir nokkrum árum þar sem fórust nokkrir tugir fjár og getgátur um að forystufé hafi þar haft forgöngu.

    Enn í dag er þörf fyrir forustufé þrátt fyrir breytta búskaparhætti. Aðallega er það við smölun afrétta og við hvers konar fjárrekstra. Gott þykir að hafa forystukind með ásetningslömbum á haustin til að venja þau og spekja. Enn er nokkuð stundað að beita fé í landinu og þá aðallega að haustinu þó að það sé á engan hátt í líkingu við það sem áður var. Við slíkar aðstæður er forystuféð nánast ómissandi. Ekki má gleyma að samkvæmt sögn margra forystufjáreigenda eru nánari tengsl við forystuféð en annað fé vegna skynsemi þess og framgöngu.

    4. Umfjöllun - Niðurstöður - Töflur

    4.1. Fjöldi og dreifing forystufjár
    Miðað við þau gögn sem ég hef undir höndum tel ég að í gagnasafni mínu séu upplýsingar um 90% af öllu forystufé í landinu.
    Í eftirfarandi töflu má sjá dreifingu forystufjár í landinu eftir sýslum samkvæmt skýrslum. Tilgreindur er fjöldi eignaraðila og forystufjár og það flokkað eftir hreinræktuðu eða blendingum.

    1. tafla. Dreifing forystufjár í landinu.
    SýslaFjöldi eignaraðilaFjöldi forystufjárHreinræktBlendingar
    Borgarfjarðarsýsla19966333
    Mýrasýsla13532924
    Snæfells- og Hnappadalss.19931083
    Dalasýsla11371918
    A.-Barðastrandarsýsla613310
    V.-Barðastrandarsýsla0000
    V.-Ísafjarðarsýsla4523022
    N.-Ísafjarðarsýsla1404
    Strandasýsla431922
    V.-Húnavatnssýsla19995940
    A.-Húnavatnssýsla16755223
    Skagafjarðarsýsla341417764
    Eyjafjarðarsýsla471069214
    S.-Þingeyjarsýsla7217814434
    N.-Þingeyjarsýsla5420418321
    N.-Múlasýsla2311610412
    S.-Múlasýsla614014
    A.-Skaftafellssýsla819019
    V.-Skaftafellssýsla0000
    Rangárvallasýsla815213
    Árnessýsla411008515
    Gullbr.- og Kjósarsýsla1202
    Samtals4061448961487

    Alls er um að ræða 1448 skráðar forystukindur í eigu 406 aðila og er það 0,3% af öllu fé í landinu miðað við ásetning haustið 1992 sem var u.þ.b. 485.000 fjár. Af hreinræktuðu forystufé er skráð 961 kind sem er 66,4% af skráðu forystufé og 0,2% af öllu fé í landinu.

    Sambærilegar tölur fyrir áætlaðan fjölda eru u.þ.b. 1610 forystukindur alls, með 0,33% hlutdeild í ásettum fjárstofni landsmanna og hreinræktaðar 1070 kindur sem eru þá 0,22% af öllu ásettu fé.

    Heildarfjöldi skráðra forystuhrúta í landinu fyrir utan sæðingarhrútinn Móblesa 89921 er 132. Þar af eru 98 hreinræktaðir og 34 blendingar (2. tafla).

    Sauðir eru alls 178 og þar af 128 hreinræktaðir.

    Ærnar eru alls 1138 og þar af eru 735 hreinræktaðar og 403 blendingar. Fjöldi áa um hvern hrút er 8,6 ær/1 hr. yfir heildina en 7,5 ær/1 hr. fyrir hreinræktaða forystuféð. Algengt er að hrútur sé notaður á 20 - 30 ær þannig að ekki er hægt að kvarta undan hrútaskorti hjá forystufénu og þá eru ekki meðtalin þau not sem höfð eru af hrút á sæðingarstöð. Einnig er algengt að hrútarnir séu notaðir lambsveturinn á ærnar en síðan geltir í hlutverk forystusauðarins og er því hátt hlutfall af ungum hrútum á skrá sem þau örlög hljóta.

    Í eftirfarandi töflu er sýnd skipting forystufjárins í ær, hrúta og sauði, skipt eftir hreinræktuðu og blendingum auk þess sem sýnt er hlutfall af heild.

    2.tafla. Ær, hrútar, sauðir.

    Kyn Fjöldi Hreinrækt Blendingar % af heild
    Ær113873540378,6
    Hrútar13298349,1
    Sauðir1781285012,3

    4.2. Áhrif forystuhrúta á sæðingarstöðvum.

    Áhrif þeirra fjögurra sæðingahrúta, sem í boði hafa verið í rúman áratug eru veruleg (3. tafla). Skráð afkvæmi þeirra í dag eru 564 sem er 39% af stofninum. Afkomendur þeirra eru mun fleiri og má ætla að meirihluti forystufjár í landinu sé afkomendur þeirra eða skylt á annan hátt þó að ekki sé hægt að sýna fram á það nákvæmlega hversu stór sá hluti er vegna ónógra ætternisupplýsinga á skráningareyðublöðum. Skráðar eru 437 hreinræktaðar forystukindur og 168 blendingar, sem ekki er vitað til að séu afkomendur sæðingahrúta. Afkvæmi og afkomendur þeirra eru því a.m.k. 524 hreinræktaðar forystukindur og 319 blendingar. Þetta sýnir að sæðingahrútarnir eiga með vissu 843 afkomendur sem er 58,2% af öllu forystufé í landinu.

    Athyglisvert er hvað þessir hrútar eiga hlutfallslega marga blendinga en skýringin á því er sú að bændur láta sæða latar ær í meira mæli til að koma sér upp forystukind ef þær eru ekki til í hjörðinni fyrir.

    Stærstur hluti þess forystufjár sem ekki er út af sæðingahrútunum er á milli Jökulsár á Fjöllum og Jökulsár á Dal. Af þeim 437 hreinræktuðu forystukindum sem ekki er vitað að séu út af sæðingahrútunum eru 225 á þessu svæði og þar af 130 frá Jökulsá á Fjöllum og út á Langanes. Greinilegt er því að þarna stendur ræktun forystufjár traustari fótum en annar staðar á landinu enda beitarbúskapur lengi stundaður og sums staðar enn í dag. Þetta svæði hefur einnig að mestu sloppið við fjárpestir og alveg við niðurskurð í áranna rás.

    Í eftirfarandi töflu má sjá afkvæmafjölda sæðingahrútanna Fora, Formanns, Salómons og Móblesa, auk samanlagðs afkvæmafjölda annarra hrúta, bæði heimahrúta og óþekktra.

    3.tafla. Afkvæmafjöldi (sæðinga)hrúta.
    Hrútur Fjöldi Hreinrækt Blendingar % af öllu forystufé
    Fori 77-960201371,4
    Formann 80-961150777310,4
    Salómon 85-8781821216112,6
    Móblesi 89-9212121337914,6
    Aðrir hrútar88461726761,0
    Samtals1448961487100,0

    4.3. Svæðabundin notkun sæðingahrúta.
    Notkun forystuhrútanna til sæðinga er æði misjöfn á milli dreifisvæða sæðingarstöðvanna (4. 5. 6. 7. tafla). Greinilegt er að notkunin er mest á svæði stöðvarinnar á Möðruvöllum í Hörgárdal sem áður var staðsett við Akureyri. Dreifisvæði hennar nær frá V-Hún. og austur um til Geithellnahrepps í S-Múl., þó hafa Vestur-Húnvetningar stundum haldið fram hjá með Borgarnesstöðinni. N- og V-Ísafjarðarsýslum er einnig þjónað frá Möðruvöllum en þar hefur einnig verið stundað framhjáhald með Borgarnesstöðinni því að öllum brögðum er beitt til að nálgast sæði úr forystuhrút.

    Sæðingastöðin í Borgarnesi þjónar Vesturlandi frá Hvalfjarðarbotni til Dala auk A- Barðastrandarsýslu og Strandasýslu.

    Laugardælastöðin þjónar frá Hvalfjarðarbotni og austur í Lón í
    A-Skaftafellssýslu, auk þess er V- Barðastrandarsýslu þjónað þaðan. Notkun á forystuhrútum er minnst á þessari stöð enda ekki mikið um forystufé á svæðinu.

    Skráður aldur afkvæma er á reiki í þónokkrum tilvikum en reynt er að leiðrétta það m.t.t. staðsetningar viðkomandi hrúts hverju sinni.

    4.tafla. Fori - fjöldi afkvæma á dreifisvæði sæðingarstöðva.
    Sæðingarstöð ÁrFjöldi
    Akureyri´816
    Borgarnes´8210
    Laugardælir´834


    5.tafla. Formann - fjöldi afkvæma á dreifisvæði sæðingast.
    Sæðingarstöð ÁrFj.ÁrFj.ÁrFj.
    Akureyri´8214´8331
    Borgarnes´8627´8722´8824
    Laugardælir´8418´8514
    Það er samdóma álit viðmælenda minna að Formann hafi gefið góðar forystukindur en yfirleitt styggar og er það löstur.

    6.tafla. Salómon - fjöldi afkvæma á dreifisvæði sæðingast.
    Sæðingarstöð ÁrFj.Ár.Fj.ÁrFj.
    Möðruvellir´8755´8826´8912
    Borgarnes´9055
    Laugardælir´9134
    Salómon hefur gefið mjög góðar forystukindur bæði hvað varðar forystu og þægð.

    7.tafla. Móblesi - fjöldi afkvæma á dreifisvæði sæðingast.

    SæðingarstöðÁrFj.
    Möðruvellir´91167
    Borgarnes´9245
    Laugardælir
    Móblesi er ungur að árum en á orðið all stóran hóp afkvæma sem lofa góðu um forystu en nokkuð ber á styggð og holdrýrð.

    4.3.1. Ætt og uppruni sæðingahrúta.
    Hér skal gera grein fyrir ætt og uppruna þeirra fjögurra sæðingahrúta sem nefndir hafa verið hér að framan.
    Fori 77-960 frá Halldórsstöðum, Ljósavatnshreppi, S-Þing., en keyptur lambið frá Þverá í Dalsmynni. F. Kobbi á Grýtubakka, Höfðahverfi, m. Litla Móra, Þverá, en hún var fæddur fjórlembingur og sjálf alltaf tvílembd. Eru báðir foreldrarnir hreinræktaðar forystukindur. Fori var hyrndur svararnhöfðóttur og rílóttur á síðum.

    Formann 80-961 frá Sandfellshaga í Öxarfirði, N-Þing., f. Hosi frá Fjallalækjarseli, Þistilfirði, m. Hosa 3, ágæt forystuær. Eru foreldrarnir báðir hreinræktaðar forystukindur af þekktum ættum. Formann var hyrndur, svararnhöfðóttur, (svarglæsóttur). Formann var út af sk. Mórukyni frá Leirhöfn á Sléttu með viðkomu í Hafrafellstungu í Öxarfirði.

    Salómon 85-878 frá Flögu, Þistilfirði, N-Þing. F. Kengur frá Ytra-Álandi. M. Hrefna frá Óla og Gunnari Halldórssonum á Gunnarsstöðum, mjög róleg og afburða vitur forystuær, enda komin af hreinræktuðum forystukindum langt fram í ættir. Salómon var hyrndur og svartur. Hrefna móðir Salómons gekk undir nafninu Flugu-Surtla og var sennilega undan Tungubresti frá Hafrafellstungu í Öxarfirði en hann var út af Mórukyni frá Leirhöfn.

    Móblesi 89921 frá Klifshaga, Öxarfirði, N-Þing. Hann er hyrndur og móarnhosóttur, (móglæsóttur). F. Mókrúni í Klifshaga, ágætur forystuhrútur, sem notaður hefur verið þar í mörg ár. M. Flekka, mjög frjósöm ær, hefur einu sinni verið þrílembd, annars tvílembd. Hún var óvenju holdmikil af forystuá að vera, mjög þæg og góð forystuær. Foreldrarnir eru báðir komnir af hreinræktuðu forystufé langt aftur í ættir. Móblesi á ættir að rekja til Móru í Leirhöfn.

    4.4. Uppruni forystufjárins og rækt þess í sýslum landsins.
    Í þessum kafla verður farin hringferð um landið og gerð grein fyrir uppruna forystufjárins og rækt þess í hverri sýslu landsins fyrir sig.

    4.4.1. Borgarfjarðarsýsla.
    Forystufjárrækt getur ekki talist útbreidd í þessari sýslu og helst ræktað til skemmtunar en þó til einhvers gagns.

    Skráður fjöldi er 96 (1. tafla), en uppruni forystufjár á þessu svæði miðast við mæðiveikifjárskiptin um og eftir 1950. Um er að ræða fé frá Vestfjörðum og þaðan fengust léttrækar kindur, þó ekki afgerandi forystukindur. Þegar sæðingar hófust frá Laugardælum 1956 var fenginn þangað forystuhrútur frá Bryðjuholti í Hrunamannahreppi Árn., sem ættaður var úr Mývatnssveit í gegnum fjárskiptafé sem kom í hreppinn 1952. Hrútur þessi hét Kragi og undan honum kom nokkuð af forystufé í sveitum Borgarfjarðar. Hann var notaður fyrir tilstuðlan Halldórs Pálssonar búfjárræktarfrömuðar og tilraunastjóra á Hesti vegna áhuga hans á forystufé. Fyrstu lömbin undan Kraga eru alin á Hesti 1957. Forystuféð þar er því allt komið út af þessum hrút og vestfirska fénu. Vestfirskar léttrækar formæður þessa fjár eru Golsukolla nr.112 frá Hamri í Nauteyrarhreppi, Hetta nr.235 frá Minni-Hattardal í Súðavíkurhreppi, N-Ísafjarðarsýslu, og Sæunn nr. 261 frá Sæbóli, Ingjaldssandi, V- Ísafj.s. Vestfirskur forfaðir er Skjöldur nr. 5 frá Skjaldfönn í Nauteyrarhr. N-Ís.

    Árið 1963 var notaður sæðingahrúturinn Glámur 580 úr Árnessýslu en ekki liggja fyrir nánari upplýsingar um hann. Eftir það og allt fram undir 1980 er Fori kemur á sæðingastöð var forystufénu haldið við, ekki síst vegna áhuga Einars E. Gíslasonar sem var bústjóri á Hesti um árabil enda átti hann sjálfur slíkt fé.

    Allir forystuhrútar á sæðingarstöð hafa síðan verið notaðir á Hesti eins og í sýslunni allri og er forystuféð á þessu svæði því allt með skyldleika við þá. Hluti hreinræktaðs forystufjár hér í sýslu er 65,6%.

    Áhrifa forystufjárræktarinnar á Hesti hefur nokkuð gætt innansveitar og í nálægum hreppum því að all nokkuð hefur verið selt af forystulömbum þaðan.

    Fleiri bæi mætti nefna þar sem forystufjárrækt hefur verið vel sinnt frá fjárskiptum allt fram til dagsins í dag með sömu leiðum og farnar voru á Hesti og skal þar helst til nefna Kópareyki í Reykholtsdal og Snartarstaði í Lundarreykjadal.

    4.4.2. Mýrasýsla.
    Forystufé er hér aðallega afkomendur sæðingastöðvahrúta þó að léttrækt fé hafi komið með fjárskiptafé frá Vestfjörðum. Langræktað forystufé er þó á bæjum í uppsveitum sýslunnar, td. í Hvítársíðu. Á Einifelli í Stafholtstungnahreppi er til stofn sem á ættir að rekja til forystufjár sem var í Fornahvammi og Sveinatungu í Norðurárdal. Það forystufé var þannig til komið að tveimur lömbum, hrút og gimbur, var smyglað norðan úr N- Þingeyjarsýslu í kringum 1960. Ýmislegt hefur því verið á sig lagt til að ná í gott forystufé.

    Í dag er þetta fé blandað forystuhrútum af sæðingarstöðvum eins og allt forystufé á þessu svæði, en skráður fjöldi þess er 53.

    Til er stofn að Langárfossi í Álftaneshreppi sem er sagður út af langræktuðu forystufé en nánari upplýsingar um hann liggja ekki fyrir.

    4.4.3. Snæfells- og Hnappadalssýsla.
    Í þessum sýslum eru skráðar 93 forystukindur sem flestar eru blendingar út af sæðingahrútum.

    Í Haukatungu í Kolbeinsstaðahreppi er til stofn sem ræktaður hefur verið allt frá fjárskiptum.

    4.4.4. Dalasýsla.
    Á skrá eru 37 forystukindur og eru þær nánast ef ekki allar af ættum sæðingahrúta. Stærstur er forystufjárhópur Svavars Magnússonar, Skörðum í Miðdalaheppi sem telur 10 kindur.

    4.4.5. A- Barðastrandarsýsla.
    Á skrá eru 13 forystukindur sem eru flestar blendingar úr sæðingum.

    4.4.6. V- Barðastrandarsýsla.
    Ekkert forystufé er á skrá í þessari sýslu en þó er vitað um gamlan stofn í Kollsvík í Rauðasandshreppi sem ekki liggja fyrir upplýsingar um.

    Hugsanlega er þessi stofn út af forystufé frá Haga á Barðaströnd. Hákon Kristófersson bóndi í Haga safnaði að sér forystufé á fyrri hluta þessarar aldar og síðast fékk hann fé austan af Fljótsdalshéraði árið 1933, tvær svartar gimbrar en svartan hrút nokkrum árum seinna. Frá Haga dreifðist forystufé um Barðaströndina og eflaust aukið kyn sitt vestur í Rauðasandshrepp. Vitað er um sauð sem Bjarni Þ. Ólafsson þá bóndi í Moshlíð á Barðaströnd, seldi vestur að Látrum og heimtist hann stundum í heimarétt sinni þannig að samgangur hefur verið þar á milli.

    Þegar Hákon hættir með forystufé fóru nokkrar kindur að Kjörseyri í Strandasýslu, en hafa þar síðar lent undir niðurskurðarhnífnum vegna fjárskipta.

    Eitthvað af forystufé eða léttrækum kindum var á fleiri bæjum, t.d. Brjánslæk, sem Karl Sveinsson bóndi þar flutti frá Skógarströnd með öðru fé. Hvaðan það forystufé, eða léttræku kindur eru, sem voru fyrir þennan tíma í Barðastrandarsýslum, er erfitt að segja til um, þó er ekki ósennilegt að forystufé hafi slæðst með í (hrúta)fjárkaupum sem áttu sér stað frá Þingeyjasýslum á síðustu áratugum liðinnar aldar. Þessir hrútar voru m.a. keyptir í Reykhóla af Bjarna Þórðarsyni sem seldi síðan töluvert af þessu kyni þar í Barðastrandarsýslum og allt vestur í Sauðlauksdal við Patreksfjörð. Tveir bændur í Arnarfirði, þeir Gísli á Fífustöðum og Bogi í Hringsdal, keyptu einnig hrúta úr Þingeyjarsýslu, nánar tiltekið úr Mývatnssveit. Laust eftir aldamótin fluttust síðan tveir Þingeyskir bræður búferlum þaðan og vestur í Tálknafjörð og höfðu kindur með sér að norðan. Ekki er óhugsandi að með þessum fjárflutningum hafi slæðst forystufé sem hafi síðan blandast og skilið eftir sig léttrækar kindur sem löngum hafa verið þekktar á Vestfjörðum án þess þó að vera eins framsæknar og gengur og gerist um hreinræktað forystufé.

    4.4.7. V- Ísafjarðarsýsla.
    Hér eru skráðar 52 forystukindur og þar af 51 í eigu þriggja aðila en það eru bændur á eftirfarandi bæjum: Auðkúlu í Auðkúluhreppi, Arnarfirði; Mýrum og Felli, Mýrahreppi, Dýrafirði.

    Uppruni þessa forystufjár er suður í Haga á Barðaströnd en féð þar hefur áður verið nefnt.

    Hákon Sturluson sem áður bjó á Borg og síðan á Hjallkárseyri í Arnarfirði var sonur Sturlu Kristóferssonar, er var bróðir Hákonar í Haga. Sturla bjó í Tungumúla í sömu sveit og var Hákon sonur hans þar viðloðandi þar til hann flytur að Borg í Arnarfirði árið 1955. Borg og Hjallkárseyri eru í Auðkúluhreppi við norðanverðan Arnarfjörð. Hákon flytur þá með sér forystukindur af stofni nafna síns og frænda. Árið 1960 selur hann síðan fé af þessum stofni til Mýra í Dýrafirði og hefur það verið ræktað þar síðan. Einnig er á Felli til fé frá Mýrum, af sama stofni. Árin 1982 og 1983 var sæðingahrúturinn Formann 80961 notaður á Mýrum og Felli og er það eina innblöndun forystufjár sem orðið hefur í þennan stofn frá Hákoni. Á þessum bæjum hefur einnig verið blandað ferhyrndu inn í forystuféð. Á Auðkúlu er einnig sami stofn sem blandast hefur með Formannssonum frá Mýrum. Formannsblandaður Hagastofn er því á þessum þremur bæjum í V-Ísafjarðarsýslu en flest er það á Mýrum, alls 26 kindur, þó ekki allt hreinræktað.

    4.4.8. N- Ísafjarðarsýsla.
    Einungis eru fjórir blendingar skráðir í sýslunni enda forystufjárrækt lítið verið stunduð við Djúp. Léttrækt fé hefur þó löngum þekkst. Ekki er vitað hvort það sé af forystufé komið eða af gömlum vestfirskum stofni. Áður hafa verið nefnd fjárkaup Vestfirðinga úr Þingeyjasýslum fyrir síðustu aldamót. Djúpmenn létu sitt ekki eftir liggja til að bæta fjárstofninn og keypti séra Stefán í Vatnsfirði hrút austan frá Vopnafirði árið 1886 og tvo hrúta úr Þingeyjarsýslu árið 1893. Stefán seldi töluvert af kindum út af þessum hrútum í kringum Djúpið. Ekki er víst að forystueðli hafi fylgt þeim en ekki er hægt að útiloka að forystugripir hafi einnig slæðst með þar sem fjárkaup voru í gangi á annað borð. Alltént er til léttrækt fé við Djúp.

    4.4.9. Strandasýsla.
    Í allri Strandasýslu er aðeins skráð 31 forystukind og er það flest út af hrútum á sæðingarstöð og léttrækum kindum af gömlum stofni. Engin forystukind er norðan varnarlínu í Steingrímsfirði. Á Hólmavík er maður að nafni Haraldur Jónsson og er hann að koma upp forystufjárstofni með notkun sæðingahrúta og kinda af gömlum léttrækum stofni frá Innra-Ósi í Steingrímsfirði. Alls telur stofninn 20 kindur og flestar blandaðar lötu fé. Mikið hefur verið spurt um forystugimbrar af fjárkaupmönnum sem eru að fá nýtt fé eftir niðurskurð og annar Haraldur ekki eftirspurn. Framtakið er því lofsvert.

    Reytingur er af forystufjárblendingum á nokkrum bæjum í Kirkjubólshreppi, t.d. Smáhömrum, Tröllatungu og Heydalsá en ekkert í Broddaneshreppi. Í Bæjarhreppi er skráð forystufé á þremur bæjum.

    4.4.10. V-Húnavatnssýsla.
    Töluvert forystufé er á þessu svæði og telst það vera 99 á skrá. Meirihluti þess er undan eða út af sæðingahrútum allt frá því fyrst var farið að sæða frá Laugardælum, þannig að Kragi frá Bryðjuholti og Glámur 580 voru notaðir hér ásamt seinni tíma sæðingahrútum.

    Uppruni þess er á Vestfjörðum og þaðan komið í fjárskiptum.

    Nokkuð margt forystufé er á sumum bæjum og má þar helst nefna Mýrar í Ytri-Torfustaðahreppi, Helguhvamm í Kirkjuhvammshr., og á Hrísum í Þorkelshólshreppi en þar er einnig ræktað ferhyrnt forystufé.

    4.4.11. A-Húnavatnssýsla.
    Þar í sýslu eru á skrá 75 forystukindur og eru nokkrir bændur sérlega áhugasamir um ræktun þeirra og ekki er á neinn hallað þó að nefndir séu Einar Höskuldsson á Mosfelli í Svínavatnshreppi og Sigursteinn Bjarnason að Stafni í Svartárdal.

    Á Mosfelli hefur verið ræktað forystufé frá fjárskiptum en fé kom þangað frá Vestfjörðum. Frá þeim tíma hafa verið notaðir hrútar frá sæðingarstöðvunum ásamt því að keyptir hafa verið hrútar norðan úr Þistilfirði. Frá Mosfelli hefur dreifst forystufé um sveitirnar í kring.

    Á Stafni í Svartárdal er einnig gamalræktaður stofn allt frá fjárskiptum. Upphaflega komu tvær léttrækar gimbrar, golsótt og grá, frá Ísafjarðardjúpi. Á þessar gimbrar var notaður hrútur undan forystuhrút frá Þistilfirði sem með krókaleiðum var keyptur að Gilhaga í Lýtingsstaðahreppi, Skagafirði. Með þessu var hafin forystufjárrækt á Stafni. Ein mórauð kind frá Kristni nokkrum Helgasyni komst í eigu Stafnsbænda fyrir 1970. Móra var frá Þverá í Vindhælishreppi, af gömlum fjárstofni þar. Sagt var að við fjárskiptin hafi þeir Þverárbændur ekki tímt að sjá af forystukyni sínu og haldið eftir mórauðum lambhrút, alið hann í jarðhýsi í tvö ár og notað hann síðan á fjárskiptalömbin Mórustofni hefur verið haldið nokkuð aðskildum frá öðru forystufé og eru í dag til þrjár ær út af henni. Sæðingahrútarnir Formann og Salómon hafa síðan á liðnum árum verið notaðir á báða stofna til framræktunar forystufjárins á Stafni sem í dag telur 16 kindur.

    Í Skagahreppi A-Hún. verða fjárskipti 1948 og er fé fengið úr N-Þing., af Útsléttu og Ströndum. Frá Sléttu kom fé með forystuhæfileika sem ræktað var upp á einstökum bæjum og í seinni tíð með sæðingahrútum.

    4.4.13. Skagafjarðarsýsla.
    Í Skagafirði er skráð 141 forystukind og er það þriðji mesti fjöldi í einni sýslu á landinu.

    Skagfirskt fé vestan Héraðsvatna er komið að mestu leyti frá Vestfjörðum en eitthvað kom af Melrakkasléttu, N-Þing. og þar með væntanlega forystufé á þetta svæði og vestur að Blöndu. Nú síðustu ár hefur verið skorið niður við riðu á fjölmörgum bæjum í Skagafirði og fé verið fengið m.a. úr Þistilfirði og hafa fylgt því forystugimbrar.

    Áhugi er víða mikill fyrir forystufé í sýslunni og má að öðrum ólöstuðum nefna vestan Vatna bræðurna Andrés og Egil Helgasyni frá Tungu í Skarðshreppi og Sauðárkróki. Einnig er verið að koma upp áhugaverðum forystufjárstofni í Ármúla, Staðarhreppi, í eigu Ara Jóhanns Sigurðssonar. Áðurnefndir aðilar hafa einnig lagt rækt við ferhyrnt fé og m.a. blandað því í forystufjárstofninn.

    Formóðir forystufjár Andrésar Helgasonar er Ása f. 1949 á Vestfjörðum. Árið 1956 er notaður forystuhrútur frá Þverá í Norðurárdal í A-Hún., sem er þá líklega út af Móra sem alinn var í jarðhýsi yfir fjárleysisárin ef sú saga er þá sönn. Hrútur þessi gekk undir nafninu Siffa-Flekkur enda í eigu Sigfúsar Guðmundssonar á Sauðárkróki. Einnig var á þessum tíma notaður hrútur frá Vindhæli í A-Hún. Árið 1963 er notaður hrúturinn Glámur 580 frá Sæðingarstöðinni í Laugardælum. Út af þessum hrútum og svo seinni tíma sæðingahrútunum Formanni og Salómon er það forystufé sem til er í Tungu í dag.

    Fé Egils Helgasonar er skylt Tungufénu en formóðir forystufjár hans er svört ær og kom hún sem gimbur í fjárskiptum 1949 frá S-Þingeyjarsýslu Auk tengsla við Tunguféð hefur árangursríkasta blöndunin komið með áðurnefndum Siffa-Flekk og Grákollu frá Hafragili í Skefilstaðahreppi auk seinnitíma sæðingarstöðvahrúta.

    Þessi lýsing á ættum forystufjár þessara manna er ekki að ástæðulausu því að svipað gildir um innblöndun forystufjár víðar á þessu svæði í áranna rás. Hér skal einnig nefna hrút þann er nefndur er í umfjöllun um A-Hún. og var í eigu Stefáns Rósantssonar í Gilhaga, Lýtingsstaðahreppi, en hann var úr Þistilfirði. Hann hafði einnig áhrif á þessu svæði.

    Austan Héraðsvatna er einnig töluvert af forystufé. Í fjárskiptunum kom vestfirskt og norðurþingeyskt fé á þetta svæði úr S-Þingeyjarsýslu og þar með forystufé. Sæðingahrútar hafa síðan verið notaðir og nú allra síðustu ár komið forystufé í fjárskiptum frá N-Þing., vegna riðuniðurskurðar.

    Sæðingahrúturinn Glámur 580 er nokkuð notaður á þessu svæði í kringum 1963 og á forystufjárstofninn á Hólum í Hjaltadal m.a. ættir að rekja til hans.

    Nokkrir áhugasamir og forystufjármargir bændur eru á þessu svæði og má þar helst til nefna bændur á Uppsölum í Akrahreppi, Enni í Viðvíkurhreppi, Víðinesi í Hólahreppi og Brúnastöðum í Fljótum.

    4.4.14. Eyjafjarðarsýsla.
    Á þessu svæði eru skráðar 106 forystukindur og er ræktunin öflug því að megnið af þeim eru hreinræktaðar. Fé kom á svæðið norðan Akureyrar í fjárskiptunum frá S-Þingeyjarsýslu og var það bæði vestfirskt og norðurþingeyskt og því forystufjárblandað. Forystuféð hefur verið framræktað af þessu fjárskiptafé og frá 1980 notið innblöndunar sæðingahrúta. Á síðustu árum hafa orðið fjárskipti vegna riðuniðurskurðar, t.d. í Svarfaðardal, og kom forystufé með fjárskiptafénu úr N-Þingeyjarsýslu.

    Á svæðið frá Akureyri til Skjálfandafljóts í S-Þing. kom aðeins fé frá Vestfjörðum og því ekkert forystufé enda sést það að forystufjárræktin er blandaðari í núverandi Eyjafjarðarsveit en annars staðar þar í sýslu.

    Forystufé er hér mjög víða á bæjum en fjárflestu bæirnir eru Staðarbakki og Búðarnes í Hörgárdal, Baldursheimur í Arnarneshreppi og Ytri-Varðgjá í Öngulstaðarhreppi.

    4.4.15. Suður Þingeyjarsýsla.
    Í þessari sýslu er næstflest forystufé í einni sýslu á landinu og eru skráðar 178 forystukindur á 72 bæjum. Forystufjárræktin er hér nokkuð öflug og mikið um hreinræktað forystufé. Enginn bær sker sig úr með mikinn fjölda og er algengt að 3-4 kindur séu á bæ en þar sem forystuféð er svo víða er auðveldara að ná til óskyldra einstaklinga á næstu bæjum eða sveitum þó að varnargirðingar loki í sumum tilfellum fyrir slíkt. Hér er notkun sæðingahrúta algeng en jafnframt hátt hlutfall heimaalinna forystuhrúta.

    Á svæðið vestan Skjálfandafljóts kom í fjárskiptunum aðeins fé frá Vestfjörðum. Upphaflega hefur því forystuféð komið inn á svæðið með smygli á kar- eða haustlömbum frá Eyjafirði eða austan Skjálfandafljóts, auk þess sem menn héldu ám undir forystuhrúta á brúm yfir Skjálfandafljót. Síðan farið var að taka forystuhrúta inn á stöð á Akureyri (nú á Möðruvöllum), hafa þeir verið notaðir óspart.

    Að Þverá í Dalsmynni þaðan sem Fori 77-960 er ættaður kom skömmu eftir fjárskiptin 1946 hreinræktuð svarbíldótt gimbur úr Austur-Bárðardal og hefur forystufé frá Þverá síðan dreifst víða þar um sveitir vestan Skjálfandafljóts.

    Á svæðið austan Skjálfandafljóts kom fé í fjárskiptunum frá N-Þingeyjarsýslu og forystufé þar með. Í Aðaldælahreppi kom t.d. fé úr Öxarfirði og forystufé aðallega frá Presthólum og Efri-Hólum þar í sveit. Á síðustu árum hafa orðið fjárskipti á nokkrum bæjum í Aðaldal og víðar vegna riðuniðurskurðar og hefur fengist forystufé með fjárskiptum úr Þistilfirði, t.d. Fjallalækjarseli, Tunguseli og Ytra- Álandi.

    4.4.16. Norður Þingeyjarsýsla.
    Þar í sýslu er stunduð mest forystufjárrækt á öllu landinu og eru 204 kindur skráðar á 54 eignaraðila. Ræktun þessa fjár stendur hér á gömlum merg enda verið stundaður beitarbúskapur allt fram á þennan dag, bæði í fjöru og í haga, þó í litlum mæli nú. Hér hafa aldrei orðið fjárskipti austan Jökulsár á Fjöllum og héðan hefur fjárskipta- og kynbótaforystufé dreifst víða um landið.

    Héðan eru þrír síðustu hrútar sem hafa verið á sæðingarstöðvum og hinir eiga ættir að rekja hingað og má því segja að allt forystufé landsmanna sé í ættir fram frá N-Þingeyjarsýslu.

    Á fyrri hluta þessarar aldar bjó í Kelduhverfi maður að nafni Þórður Benjamínsson og ræktaði hann gott hreinræktað forystufé þannig að eftir var tekið og kom ánum jafnvel undir hrúta í fjarlægari sveitum. Ærnar teymdi hann á milli, svo vel voru þær vandar hjá honum.

    Allt fé var skorið niður vestan Jökulsár, mest 1944. Fór þá forystufé Þórðar sem og annara. Fé var keypt aftur í sveitum austan Jökulsár og gat Þórður m.a. fengið fé af sínum stofni, því að hann var búinn að selja fé víða og hóf hann ræktunina á ný. Þórður druknaði í Víkingavatni við eftirgrenslan fjárins árið 1950. Enn eru til kindur af stofni Þórðar á bæjum í Kelduhverfi og sennilega væri forystufjáreign minni í þessari sveit og víðar hefði Þórðar ekki notið við.

    Á síðustu árum hefur verið skipt um fjárstofna á sumum bæjum í Kelduhverfi vegna riðu, en fé keypt aftur úr Þistilfirði og af Langanesi og því forystufé þar með. Sæðingahrútar eru einnig notaðir en flest er forystuféð hér í sýslu vestan Jökulsár, á Víkingavatni.

    Austan Jökulsár eru langræktaðir stofnar og hafa menn stundað töluvert að skiptast á hrútum og fara með ær undir hrúta á öðrum bæjum jafnvel á milli Öxarfjarðar og Þistilfjarðar. Skyldleiki forystufjárins í sýslunni er orðinn nokkur en ekki til skaða enn sem komið er, þó hefur komið fram rýrð vegna skyldleika í sumum hjörðum. Sæðingahrútar hafa ekki verið notaðir hér hlutfallslega eins mikið og annars staðar vegna skyldleika þeirra við féð á svæðinu og tala þeir Sýslungar um að finna þurfi fjarskyldari hrút á sæðingarstöð. Nánar verður fjallað um skyldleika í sýslunni í sérstökum kafla.

    Erfitt er að tilgreina sérstaka hópa til umfjöllunar að því þeir eru svo víða en þó hefur forystufé á ákveðum bæjum haft meiri áhrif á svæðinu en annað á liðnum áratugum. Má þar nefna Leirhöfn, Katastaði, Hafrafellstungu, Presthóla, Sandfellshaga og Klifshaga vestan Sléttu. Nýir bæir hafa að hluta tekið við hvað fjölda og ræktun forystufjár varðar, t.d. Bjarnastaðir og Vestaraland II. Að öðrum hópum ólöstuðum er samstæðasti forystufjárhópurinn hjá Grími Jónssyni í Klifshaga, Öxarfirði, en þaðan er Móblesi sem nú er á sæðingarstöð. Í Þistilfirði og Langanesi er forystufé á flestum bæjum. Víðast er ræktuninni sinnt af kostgæfni en stærstu hóparnir eru á bæjunum Fjallalækjarseli, Ytra-Álandi, Laxárdal, Gunnarsstöðum og Tunguseli.

    Bændum hér er yfirleitt kappsmál að eiga gott forystufé enda telja þeir að verulegt gagn sé að því enn. Þónokkuð er gert af því að fara með hrúta eða ær milli bæja um fengitímann eða nýir gripir eru keyptir til blöndunar bæði innan sveitar og utan, t.d. úr Öxarfirði og Langanesströnd í Skeggjastaðahreppi en þar er aftur blöndun úr Vopnafjarðarfé. Á Hólsfjöllum hefur fé þurft að hopa vegna uppblásturs lands en nokkrar forystukindur eru þar á einum bæ, Nýhóli. Áður var forystufé algengt á Fjöllum og sóttu t.d. Öxfirðingar þangað forystufé til kynbóta.

    4.4.17. Norður Múlasýsla.
    Forystufjárrækt stendur hér einnig á gömlum merg eins og í N-Þing. og eru á skrá 116 forystukindur. Svipaða sögu má því segja hér um hvernig menn hafa náð sér í forystublóð til blöndunar, þó hafa menn hér notað sæðingahrúta hlutfallslega meira en þar. Forystuhrútar hafa verið keyptir bæði úr Öxarfirði, Þistilfirði og allt suður í Jökuldal. Blöndun við Þistilfjörð og Langanes er eðlilega mest á Langanesströndinni og þaðan suður í Vopnafjörð.

    Forystufé í Vopnafirði er m.a. ættað frá Möðrudal á Fjöllum, Jökuldal og þangað komið sunnan úr A-Skaftafellssýslu. Eitthvað hefur einnig verið sótt í N-Þing.

    Forystufé hefur almennt fækkað á hverjum bæ á liðnum árum, þó eru á Jökuldal og í samnefndum hreppi nokkur af stærstu forystufjárbúum á landinu í dag og má þar nefna bæina Eiríksstaði, Hákonarstaði III, Möðrudal og Skjöldólfsstaði I. Einnig á Breiðamörk í Jökulsárhlíð. Forystuféð á þessum bæjum ásamt fleiri bæjum í þessum sveitum er gamalræktaður stofn sem blandaður hefur verið með hrútum eða ám víða að t.d. frá Hólsfjöllum, Þistilfirði, Hróarstungu, Fljótsdal og síðan hrútum af sæðingarstöð.

    Allt fé var fyrir nokkrum árum skorið niður á milli Jökulsár á Dal og Lagarfljóts ásamt Borgarfirði, Seyðisfirði og Mjóafirði. Nýtt fé er að koma inn á þetta svæði en ekkert forystufé hefur verið skráð með því.

    4.4.18. Suður Múlasýsla.
    Víða hefur verið skorið niður í sýslunni undanfarin ár vegna riðuveiki og á skrá eru aðeins 14 forystufjárblendingar undan sæðingahrútum.

    Á árunum 1950 -'60 voru fluttir tugir hrúta til kynbóta frá Þistilfirði til Austfjarða og allt suður í Lón og með slæddust forystugimbrar.

    4.4.19. Austur-Skaftafellssýsla.
    Áður var hér í sýslu nokkuð af forystufé en nú aðeins blendingar út af sæðingahrútum. Alls eru skráðar 19 kindur.

    4.4.20. Vestur-Skaftafellssýsla.
    Ekkert forystufé er skráð í þessari sýslu enda þeirri rækt verið lítið sinnt í seinni tíð.

    Ekki er hægt að yfirgefa þessa sýslu án þess að nefna villiféð sem var í Núpsstaðarskógi á síðustu öld. Það var sagt styggt og rýrt.

    Í bókinni "Fjöll og firnindi" eftir Árna Óla er getið um fjárrekstur úr Skaftafellssýslu og austur á Hérað. Með í þessari för var afburða forystuhrútur sem Árni fullyrðir að hafi verið út af villifénu kominn. Hugsanlega hefur þetta fé því verið forystufé.

    4.4.21. Rangárvallasýsla.
    Í þessari sýslu eru aðeins skráðar 15 forystukindur og flestar eru blendingar úr sæðingum.

    Í fjárskiptunum kom fé í Rangárvallasýslu frá Vestfjörðum og V-Skaftafellssýslu og ekkert forystufé með því og skýrir það því að hluta þá litlu rækt sem Rangæingar hafa sýnt forystufénu.

    4.4.22. Árnessýsla.
    Á þessu svæði eru skráðar 100 forystukindur. Flest er forystuféð í Hraungerðishreppi, Hrunamannahreppi og Villingaholtshreppi og þeir bæir sem hafa haft mest áhrif á forystufjárræktina á þessu svæði eru Brúnastaðir og Langstaðir í Hraungerðishreppi, ásamt Hrafnkelsstöðum og Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi.

    Uppruni forystufjárins á svæðinu er frá fjárskiptum úr Þingeyjarsýslunum báðum. Frá þeim tíma hefur því verið haldið við og ræktað með öllum forystuhrútunum sem hafa verið á sæðingarstöðinni á Laugardælum.

    4.4.23. Reykjavík, Gullbringu- og Kjósarsýsla.
    Aðeins tvær kindur eru skráðar á þessu svæði enda allt ættað af Vestfjörðum þar sem lítið er um forystufé.

    4.5. Skyldleiki forystufjár í Norður-Þingeyjarsýslu.
    Í þessum kafla verður reynt að gera grein fyrir skyldleika í sýslunni austan Jökulsár á Fjöllum. Eins og áður hefur komið fram er hér aðal ræktunarsvæði forystufjár í landinu og hingað hafa verið sóttir þrír síðustu forystuhrútar á sæðingarstöð.

    Ekki var í þessari könnun safnað gögnum sem gerðu mögulegt að meta skyldleikann nákvæmlega. Hér verður því tekinn til umfjöllunar skyldleiki á milli fjárhópa einstakra búa sem kveðið hefur að í forystufjárrækt, á þann hátt að tiltekið verður það sem blandast inn í hjörðina á hverju búi og þar með mynduð tengsl milli þeirra.

    Á Katastöðum hefur löngum verið góður stofn af forystufé sem dreifst hefur víða. Á árunum 1930-'34 var notaður þar hrútur austan af Jökuldal. Hrútur þessi kom gamall í Katastaði en hafði áður verið fyrst á Hólsfjöllum, síðan í Hafrafellstungu, þá á Brekku og síðast á Katastöðum. Hann var svartbíldóttur og var alið mikið undan honum á þessu svæði. Í dag er forystuféð þar undan hrútum frá Klifshaga, Núpi og Leirhöfn.

    Frá Hjarðarási dreifðist fé í Vestaraland, Valþjófsstað og Austaraland Í Klifshaga er samstæður og fallegur hópur forystufjár en er orðinn nokkuð skyldur innbyrðis. Þessi hópur er ásamt heimafé ræktaður út af fé frá Hafrafellstungu, Ærlækjarseli, Sandfellshaga, Blikalóni og Fjallalækjarseli.

    Í Hafrafellstungu var á sínum tíma góður forystufjárstofn en þangað voru keyptar nokkrar gimbrar af Mórukyni frá Leirhöfn og þannig á Móblesi 89921 frá Klifshaga ættir að rekja til Móru. Nánar er það þannig: Móblesi -f. Mókrúni - fm. 83301 - fmf. Flekkuson - fmfm. Gamla-Flekka -fmfmm. ær frá Hafrafellstungu út af Mórukyni.

    Á árunum 1985-'86 voru hrútar undan Gömlu-Flekku seldir í Katastaði og Hafrafellstungu.

    Mókrúni faðir Móblesa var í láni á Bjarnastöðum um tíma og á hann þar ættboga. Féð á Bjarnastöðum er að stofni til frá Hafrafellstungu og út af Mórukyni frá Leirhöfn og mætast því tvær greinar Mórukyns þar með Mókrúna. Á Bjarnastöðum var stofninn upphaflega kollóttur en er nú aðallega hyrndur. Tvær ær eru þar með sérkennilega hnífla sem minna einna helst á gimbrarhorn.

    Í Fjallalækjarseli hefur alltaf verið forystufé. Fyrir 1970 kom þangað mórauður hrútur af Mórukyni frá Hafrafellstungu í Öxarfirði. Síðar kom hrútur frá Bjarnastöðum sem einnig var af Mórukyni. Í dag er féð allt undan og út af Glæsi frá Ytra-Álandi og Keng Kengssyni frá Flögu. Kengur þessi er bróðir Salómons 85-878 sem var á sæðingastöð. Eldri Kengur faðir þeirra var frá Ytra-Álandi. Forystuféð í Fjallalækjarseli er því orðið verulega skylt fénu á Ytra-Álandi því þar á Kengur eldri stóran ættboga auk þess sem til eru ær þar sem eru undan hrút sem var í Fjallalækjarseli og var frá Hafrafellstungu. Kengur eldri á afkomendur á mörgum bæjum.

    Í dag er féð á Ytra-Álandi einnig undan hrútum frá Gunnarsstöðum (t.d. Liða), Syðra-Álandi og undan Móblesa 89-921.

    Sami stofninn er búinn að vera á Syðra-Álandi í 40-50 ár og var í upphafi fengið fé frá Hafrafellstungu og Katastöðum. Grímur Guðbjörnsson þáverandi bóndi keypti a.m.k. tvo hrúta á Katastöðum.

    Móðir Salómons 85-878, Hrefna (hér kölluð Flugu-Surtla), er líklega undan Tungubresti frá Hafrafellstungu og þaðan ættuð af Mórukyni.

    Forystuféð á Gunnarsstöðum er upphaflega frá Grími á Syðra-Álandi frá því um 1950. Árið 1970 kom hrútur þangað frá Hafrafellstungu og út af Mórukyni. Var hann nefndur Tungubrestur og var mikið notaður á báðum Gunnarsstaðabæjunum. Árið 1978 er keypt fullorðin ær frá Flautafelli og út af henni eru nokkrar kindur ásamt hrútum frá Flögu og Ytra-Álandi.

    Í dag er féð aðallega undan hrútum frá Flögu, Ytra-Álandi og mórauðum hrút sem heitir Liði og er sá fenginn frá Bakkafirði en á föðurætt að rekja að Hámundarstöðum í Vopnafirði en móðurætt frá Gunnarsstöðum.

    Í Laxárdal er orðinn sami stofn og er á Syðra- og Ytra-Álandi og Gunnarsstöðum. Einnig er til fé undan hrút frá Grímsstöðum á Fjöllum sem var á Hallgilsstöðum. Sæðingar hafa jafnframt verið notaðar í seinni tíð.

    Í Tunguseli er mikill áhugi fyrir forystufjárrækt og hefur hún verið stunduð þar lengi. Stofninn má rekja til formóðurinnar Stroku frá Syðra-Álandi og var hún fædd 1934. Faðir hennar var ættaður frá Katastöðum. Um Stroku er skrifað í bókinni Forystufé eftir Ásgeir frá Gottorp, bls. 298.

    Á liðnum áratugum hefur blandast forystufé inn í stofninn frá ýmsum stöðum svo sem frá Ytra-Álandi, Syðra-Álandi, Sauðanesi og Eiði á Langanesi. Hér er nú til golsótt forystufé sem er orðið fáséð. Átta vetra gamall hrútur frá Fjallalækjarseli er nú notaður til forystufjárkynbóta í Tunguseli.

    Á Sauðanesi er stundaður beitarbúskapur bæði í fjöru og í haga og er því mikil þörf fyrir gott forystufé. Hér hefur m.a. verið fengið fé sunnan úr Bakkafirði, auk þess sem sæðingahrútar hafa verið notaðir.

    Þessi umfjöllun um skyldleika forystufjárins í N-Þingeyjarsýslu gefur einhverja vísbendingu þó svo að hún sé ekki tæmandi. Menn telja að á sumum bæjum sé komin rýrð í forystuféð vegna skyldleika og bændur kvörtuðu yfir því og bentu á að finna þyrfti óskyldari hrúta á sæðingarstöð vegna takmarkaðra nota hér af þeim hrútum sem hingað til hafa verið á stöð.

    Forystuféð er hér í sýslu orðið nokkuð skylt en þó misjafnt milli bæja. Skyldleiki er að ég tel ekki enn til baga nema þá á einstökum bæjum, en hafa verður vakandi auga fyrir honum í framtíðinni því að bersýnilegt er að N-Þingeyjarsýsla verður áfram aðal ræktunarsvæði forystufjár í landinu.

    Komið hefur fram í kaflanum að flest forystufé hér um slóðir eigi ættir að rekja til Móru frá Leirhöfn og með skyldleika sæðingahrútanna við hana má segja að mest allt forystufé í landinu eigi ættir sínar að rekja til hennar. Þökk sé Jóhanni Helgasyni bónda í Leirhöfn fyrir framlag hans til forystufjárræktar í landinu.

    4.6. Útlit forystufjár.
    Útliti forystufjár má lýsa í stuttu máli þannig: Það er léttbyggt, yfirleitt þunn- og hávaxið, oft holdskarpt en afar hraust. Fætur eru háir en nettir og réttir með vel lagaðar klaufir. Það hefur annað göngulag sem er harðara, n.k. brokk og sumar taka töltspor. Það er reist og kvikt og ber yfir annað fé, áberandi vegna öðruvísi hegðunar, með stór greindarleg augu sem oft eru dekkri en í öðru fé. Forystuféð er venjulega mislitt og eru þar til allir hugsanlegir litir. Einn bóndi lýsti forystuhrút sínum þannig:

    "Upplitsdjarfur, eldstyggur,
    ekki stór en fallegur,
    afturhyrndur ullarþunnur,
    er mókrúnuleistóttur."

    4.6.1. Vaxtarlag.
    Til að meta það vaxtarlag sem lýst var hér að framan var forystufé mælt hefðbundinni mælingu í ferð um sveitir landsins, þó aðallega í N-Þingeyjarsýslu. Hér eru einungis notuð mál af hreinræktuðum forystukindum. Þessir mældu eiginleikar eru síðan bornir saman við það sem algengt er í almennri sauðfjárrækt í dag. Til samanburðar var tekið meðaltal af málum allra áa sem voru afkvæmasýndar árin 1990 - 1992 og niðurstöður birtust um í ritinu Sauðfjárræktin. Sama á við um samanburð hrúta en valdar eru meðaltalstölur tveggja vetra hrúta og eldri eins og þær birtust í Sauðfjárræktinni 1990 fyrir hrúta í Svalbarðshreppi Þistilfirði en þaðan eru flestir mældir forystuhrútar einnig. Samanburður meðaltalna er sýndur í eftirfarandi töflu, þó eru ekki latir sauðir með.

    8.tafla. Samanburður á meðaltölum mældra eiginleika.
    Stofn, kyn. Fjöldi BrjóstmálSpjaldbreidd Legglengd
    Forystuær8688,018,3130,3
    Latar ær10397,521,1121,8
    Forystuhrútar882,119,9136,8
    Latir hrútar26107,925,4125,0
    Forystusauðir1193,119,8138,0

    Greinilegur munur er á því hversu forystuféð er grófbyggðara en lata féð. Þennan mikla mun á hrútamálunum má að hluta til skýra vegna almenns ástands hrúta á þessum tíma miðað við haustmælingu lötu hrútanna. Latir Þistilfjarðarhrútar hafa einnig um áratugaskeið þótt með þeim best vöxnu á landinu.

    4.6.2. Holdafar.
    Ekki er hægt að hrósa holdum forystufjárins og það þó fóðrun sé góð. Það þrífst oftast vel þrátt fyrir holdleysið. Forystuféð er ekki fitusækið og eru skrokkarnir oft bláir af fituleysi. Vera má að sumum fituhræðslumönnum henti slíkt kjöt.

    Til að meta hold forystufjárins var það holdastigað eftir þeim kvarða sem notaður er í dag og kemur frá Skotlandi.

    Til samanburðar eru notaðar holdastigatölur úr fóðrunartilraun á Hvanneyri. Niðurstöður eru sýndar í eftirfarandi töflu.

    9.tafla. Samanburður á meðaltali holdastiga.
    Ær Fjöldi Holdastig
    Forystuær863,43
    Latar ær á Hve.643,96


    Fram kemur, eins og við var að búast, að forystuféð er miklu holdrýrara en lata féð og munar í þessu tilfelli 0,53 í holdastigi.

    4.6.3. Ullarfar.
    Meirihluti viðmælenda minna eru sammála um að forystufé sé ullarminna en annað fé, það er yfirleitt stríhærðara, þ.e. þelminna, og því kemur slétt togið betur í ljós. Oft er meiri gljái á togi forystufjár.

    Dæmi eru um að gamlar snoðnar forystukindur rifu af sér alla ull ef beitt var í hrís og voru þær þá klæddar í peysu eða gamalt reyfi sem reyrt var utan um þær, svo þær gætu sinnt forystuhlutverki sínu.

    4.6.4. Litur.
    Um lit forystufjár er það að segja að hann getur verið allavega, þó er tiltölulega fátt hvítt og golsótt er að hverfa sem litur á forystufé en var algengur áður. Töluvert er af svörtu og mórauðu en ekki eins og áður, sbr. skráðar sagnir í bókinni "Forystufé".

    Við skráningu á lit, á það skýrsluform sem sent var til fjáreigenda, voru litalyklar fjárræktarfélagana notaðir. Í ljós kom að nánari sundurliðun hefði þurft að vera því að mjög margir sendu inn skrifaða litarlýsingu og tók ég því upp nánara skráningarform í þeim tilfellum sem litarlýsing var nákvæmari. Flest féð lendir í flokkunum 39 og 49 sem er svarflekkótt og móflekkótt og er ekki nánar skilgreint enda ekki beðið sérstaklega um annað. Því má ekki taka þessa sundurliðun mína sem nákvæma sundurliðun litanna heldur gefur hún aðeins hugmynd um tíðni litadreifingar.

    Í eftirfarandi töflu má sjá tíðni hvers litar eins og þeir eru skráðir inn í gagnasafn.

    11. tafla. Tíðni lita

    LiturFjöldiHreinræktBlendingur% af heild
    ræktingurheild
    Hvítt eða óþekkt4517283,1
    Grátt, ekki nánar 11 5 6 0,8
    Skilgreint
    Hélugrátt 1 0 1 0,1
    Dökkgrátt 5 2 3 0,3
    Grábotnótt 2 2 0 0,1
    Grágolsótt 3 1 3 0,2
    Gráflekkótt, ekki 31 14 17 2,1
    nánar skilgreint
    Grábíldótt 2 0 2 0,1
    Gráhosótt 4 4 0 0,3
    Gráblesótt 8 6 2 0,5
    Grákrúnótt 1 0 1 0,1
    Gráhöttótt 2 0 2 0,1
    Svart 185 107 78 12,8
    Svarbotnótt 30 21 9 2,1
    Svargolsótt 12 5 7 0,8
    Svarflekkótt, ekki 369 264 105 25,5
    nánar skilgreint
    Svarbíldótt 43 35 8 3,0
    Svarhosótt 65 57 8 4,5
    Svararnhöfðótt 79 55 24 5,5
    Svarblesótt 31 26 5 2,1
    Svarkrúnótt 40 29 11 2,8
    Svarhöttótt 18 10 8 1,2
    Sv.hosbotnótt 10 9 1 0,7
    Sv.golsbíldótt 10 7 3 0,7
    Svarkápótt 13 6 7 0,9
    Mórautt 82 43 39 5,7
    Móbotnótt 21 13 8 1,5
    Mógolsótt 7 2 5 0,5
    Móflekkótt, ekki 177 125 52 12,2
    nánar skilgreint
    Móbíldótt 16 14 2 1,1
    Móhosótt 39 27 12 2,7
    Móarnhosótt 17 13 4 1,2
    Móblesótt 35 29 6 2,4
    Mókrúnótt 10 6 4 0,7
    Móhöttótt 3 2 1 0,2
    Móhosbotnótt 4 3 1 0,3
    Mógolsbíldótt 2 1 1 0,1
    Mókápótt 6 4 2 0,4
    Grámórautt 3 2 1 0,2
    Grámóflekkótt 4 3 1 0,3
    Grámóblesótt 2 2 0 0,1


    Samkvæmt þessum tölum má meta tíðni á erfðavísi fyrir mórauðum lit (B2) 0,55 og tíðni á erfðavísi fyrir tvílit (S2) 0,89 sem er mjög hátt.

    4.6.5. Horn.
    Flest forystufé er tvíhyrnt á ýmsa vegu. Áður var algengt og er þekkt enn í dag, að venja horn á forystufé, þá sérstaklega sauðum. Með þessu fengu sauðirnir oft ákveðna reisn og ekki voru þeir minna áberandi ef koparklukka var sett í horn. Klukkan þjónaði því hlutverki að fé og fjármenn heyrðu í ferðum sauðanna, sem oft kom sér vel í misjöfnum veðrum. Í dag er fátítt að sjá forystusauð eða á með klukku og er það miður, því að hún gefur forystukindinni meiri reisn.

    Hníflótt hefur lengi verið þekkt í forystufé og þá jafnvel stórir hníflar sem minna einna helst á gimbrarhorn.

    Ferhyrnt er hins vegar komið til við blöndun ferhyrndra kinda inn í forystufjárstofninn.

    Í eftirfarandi töflu sést hvernig skráð forystufé skiptist í hvers konar hornalag og kollótt.

    10.tafla. Hornalag/kollótt - fjöldi.
    Hornalag/kollótt Fjöldi Hreinrækt Blendingur % af heild
    Tvíhyrnt 1281 88,54
    Ferhyrnt 29 13 16 2,00
    Þríhyrnt 2 2 0 0,14
    Hníflótt 30 22 8 2,00
    Kollótt 106 53 53 7,32

    4.7. Eiginleikar forystufjár.

    4.7.1. Forystueiginleikinn.
    Þessi fágæti eiginleiki sem býr í íslenska forystufénu erfist vel. Það er tilfinning viðmælenda minna að eiginleikinn eflist við skyldleikarækt Algengt er að skyldleikarækt komi fyrst fram í rýrð og smæð, síðan t.d. ófrjósemi og vansköpun.

    Hegðun forystufjárins er um margt frábrugðin slíku hjá öðru fé. Þessi eiginleiki að fara á undan, velja bestu leiðirnar, vita á sig veður og vera svona duglegt og harðara af sér en annað fé er einstakur. Vitsmunir þess eru einnig áberandi meiri en hjá öðru fé. Forystukindin fer sjálf á undan og skapar fordæmi þannig að annað fé fylgir í kjölfarið. Forystukindin þarf ekki að berjast um yfirráð við lata féð, heldur fylkir það sér að henni sem hinum eina og sanna foringja, það vinnur sér traust vegna eigin verðleika. Þegar margar forystukindur eru saman í blönduðu fjársafni keppast þær bestu um að vera fyrstar en ef margar forystukindur eru í sínum heimahóp, þá er það alltaf ein sem ræður og oft er sama röðin á eftir henni þannig að ef hún fellur frá þá tekur nr. 2 við forystunni. Ef forystukindin er farin að fara hægar yfir en vanalega, t.d. vegna aldurs, hægir allt safnið á sér njóti hún nægilegrar virðingar í hópnum, helst þyrfti því að fjarlægja hana til að láta arftaka hennar njóta sín. Á beit er féð oft í smærri hópum og ef margar forystukindur eru fyrir hendi dreifa þær sér hver með sinn hóp á beitinni, þó svo að þær lúti aðal forystukindinni í safni. Meira ráp er á forystufénu á beit.

    Forystuféð skynjar oft hættur og eru til fjölmargar sögur um það hvað það er veðurglöggt, t.d. það að vilja ekki fara úr húsi ef von var á vondum veðrum. Líklega er forystufé næmari fyrir loftþrýstingsbreytingum en annað fé. Óvenjuleg saga hefur borist mér í hendur vestan frá Kanada sem verður að segjast hér. Þar býr íslensk kona (Stefanía Sveinbjarnardóttir) með íslenskt fé og þar með eina forystukind sem heitir Blesa. Hún er úr Öræfasveit og sýnir slíka vitsmuni að eftir er tekið. Hún finnur t.d. á sér ef hætta stafar af úlfum í nágrenninu. Einhverju sinni vildi hún ekki fara út í haga með öðru fé heldur var ein eftir heima. Síðar um daginn hafði úlfur valdið lambsskaða. Hér á landi hafa þær aðallega varast veðurfarslegar hættur og torfærar slóðir frá fjöru til fjalla en þarna sést ný hlið á því næmi sem þær hafa fyrir hættum. Í dag er fullt traust borið til Blesu ef hún vill ekki frá húsum.

    Forystufé er kvikt, sérstaklega úti og á fjalli á sumrin, þó eru einnig til spakar forystukindur en duglegar og eru þær bestar til forystu. Í göngum hafa þær velgt mörgum gangnamanninum undir uggum en oftast gefa þær sig og renna heim á leið ef þær verða varar við húsbónda sinn. Oftast eru þær til gagns í göngum og við aðra fjárrekstra.

    Á húsi er forystuféð yfirleitt spakt þó svo að það lyfti sér stundum yfir milligerðir og slíkt. Það er athugulla en annað fé og fylgist vel með því sem gerist í kringum það. Ef ókunnugir koma í fjárhús fer það strax að ókyrrast. Forystuféð er yfirleitt vanafast á staðarvali í fjárhúsum og á jötu og er þar alla jafnan frekara, þó sérstaklega sauðirnir.

    Forystuærnar eru framúrskarandi mæður og berja yfirleitt ekki lömb annarra áa í stíu. Aldrei þarf að óttast um að þær sinni ekki lömbunum sínum eins og oft vill verða með lata féð. Lömbin fylgja einnig mæðrum sínum sérlega vel, t.d. í rekstri, og oft fast við þær og er engu líkara en að þeim hafi verið skipað svo fyrir. Forystulömbin leika sér meira en önnur lömb og hreykja sér þá oft upp á þúfum og hæðum eins og til að fylgjast með. Á haustin er þeim sárari aðskilnaðurinn við mæður sínar og lýsir það ásamt öðru í þessari umfjöllun hversu skynugar forystukindur eru.

    Góð not fyrir forystukindur, önnur en þau sem nefnd hafa verið í þessu verkefni, eru við túnbeit ásetningslamba á haustin. Þær spekja hópinn og venja hann við rekstur, auk þess sem lömbin læra að treysta manninum því að oft er svokölluð styggð einungis vantraust og hræðsla. Forystufé getur hins vegar valdið styggð í lambfé á vorin þegar þær hugsa sér til hreyfings í sumarhaga.

    Oft eru sauðir hafðir til forystu því að þeir eru sterkari og harðari af sér en ærnar, þó er það ekki algilt. Sumir telja vorgeldinga betri forystukindur því að þeir eru líkari ánum í háttarlagi en harðari af sér. Aðrir telja að betra sé að hafa haustgeldinga sem forystusauði, því að ef fé sé beitt fram eftir hausti hafi haustgeldingarnir meira eftirlit með ánum líkt og hrútar. Þær hlaupi því síður bæjarleið á gangmáli heldur haldi sig við sauðinn. Forystuhrútar eru oft notaðir til að leita á yfir fengitímann því að þeir eru leiðitamari en aðrir hrútar.

    Viðmælendur mínir töldu að tamning og þjálfun forystufjár skili betri forystukindum. Lömbin fá stuðning strax á fyrsta sumri frá móður sinni hvað varðar forystueiginleikann, þó er þetta ekki einhlítt því að lömb sem vanin eru undir latar ær geta einnig orðið góðar forystukindur því að erfðirnar eru sterkar. Gott er að venja lömbin strax á haustin með reyndri forystuá, einnig þarf að skapa traust á milli manna og kinda til að koma í veg fyrir styggð. Forystukindur hafa verið þjálfaðar til að hlýða ákveðnu kalli eða bendingum og best er að byrja á því með lamb strax að haustinu. Dæmi eru um ómælt gagn af slíkri þjálfun. Forystufé batnar með aldri og meiri reynslu, blendingar eru þó oftast styggari og óviðráðanlegri.

    Oft hefur verið sagt að góð forystukind stæði kyrr þegar hún væri handsömuð. Til að sannreyna þetta var skráð í áðurnefndri skoðunarferð hvort féð gerði þetta. Sannast sagna reyndist þetta afskaplega misjafnt og ekki hægt að sjá neina reglu út úr því enda voru skoðanir viðmælenda minna skiptar hvað þetta varðaði.

    Aldrei skyldi hundbeita forystufé nema um góða þjálfaða hunda sé að ræða því að trylltur hundur getur brotið niður sjálfstæði og forystu kindarinnar, sérstaklega ungra forystukinda.

    4.7.2. Frjósemi og mjólkurlag.
    Forystufé er nánast undantekningarlaust frjósamt og mjólkurlagið og þá oftast meira en meðaltal búanna. Nokkuð algengt er þó að þær haldi ekki á sér fram á haust.

    4.7.3. Heilbrigði og ending.
    Ending forystufjár er yfirleitt meiri en í lötu fé enda hefur það léttari búk að bera. Einnig er það gert eldra vegna forystueiginleikans sem verið er að halda í, jafnframt er þetta fé yfirleitt nátengdara húsbændum sínum og því oft í uppáhaldi og þess vegna leiðinlegra að leiða það til slátrunar.

    Fótagerð hefur áður verið lýst og er undantekning að sjá halta forystukind eða að snyrta þurfi á þeim klaufir, svo nettar eru þær en fá þó meira slit vegna meiri hreyfingar fjárins. Réttir góðir og sterkir fætur er hluti af góðri endingu forystufjárins.

    Júgurheilbrigði forystuáa er meira en lata fjárins. Undantekning er að þær fái júgurbólgu og var það samdómaálit flestra viðmælenda minna. Hver skýringin er skal ekki fullyrða um hér en forystulömbin leika sér a.m.k. meira en önnur lömb og því þurftarmeiri á mjólk og hreinsa því líklega mæður sínar betur en lötu lömbin. Hugsanlega er júgrið sterkara og nagsár því óalgengari. Einnig var nefnt, meira í gríni en alvöru, að forystuærnar væru svo háfættar að þær tækju síður niðri með júgrið.

    Áður og jafnvel enn ganga sögur um að forystuféð þyldi mæðiveiki betur og garnaveiki verr en annað fé. Þetta hefur aldrei verið sannað og kalla fræðimenn þetta bábiljur einar.

    Forystufjárlömbum er öðrum lömbum frekar hættara við stíuskjögri enda leika þau sér meira.

    4.8. Varðveisla forystueiginleikans.
    Árið 1976 flutti Sigurður Björgvinsson, þáverandi bóndi á Neistastöðum í Flóa en uppalinn að Garði í Mývatnssveit, frumvarp til laga um breytingu á búfjárræktarlögum nr. 31 24.apríl 1973. Frumvarpið gengur út á að Búnaðarfélag Íslands hlutist til um ræktun og verndun forystufjár í landinu þannig að það glatist ekki. Þar segir einnig að lögð skuli rækt við að laða fram bestu eiginleika forystufjárins og mönnum gefinn kostur á að fá sæði úr völdum forystuhrútum. Jafnframt verði veittar leiðbeiningar um tamningu og meðferð fjárins. Frumvarp þetta varð síðan lítið breytt að lögum.

    Segja má að þetta frumvarp hafi verið upphafið að því að huga þyrfti að verndun forystufjár í landinu enda flutt af manni sem hafði alist upp við forystufé í Mývatnssveit. Sigurður gerði sér því vel grein fyrir því hvert stefndi og að úrbóta væri þörf.

    Árið 1989 er enn samþykkt breyting á búfjárræktarlögum, nr. 84 30. maí. Þar eru ákvæðin um forystuféð felld út en þau síðan samofin störfum Erfðanefndar sem samþykkt var að stofna. Í 16. gr.,b lið segir að meðal verkefna nefndarinnar sé að gera tillögur til landbúnaðarráðherra um sérstakar ráðstafanir til verndunar þeirra tegunda og stofna og eiginleika sem eru í útrýmingarhættu, að mati nefndarinnar. Kostnaður vegna verndunaraðgerða greiðist úr ríkissjóði.

    Þetta eru lögin sem eru í gildi í dag og er það því hlutverk Erfðanefndar að fylgjast með og koma með úrbætur fyrir forystufjárrækt í landinu ef þurfa þykir.

    Rúman undanfarin áratug hefur verið boðið upp á forystuhrúta á sæðingarstöð og miðað við afkvæmahóp þeirra í landinu sem er 39% þykir bersýnilegt að nauðsynlegt sé að halda því áfram til viðhalds stofninum .

    Við val á hrútum á sæðingarstöð ber að hafa í huga að aðeins sé boðið upp á hrúta af hreinræktuðu úrvals forystukyni. Til að slíkt sé tryggt þarf að vera fyrir hendi nákvæmt skýrsluhald yfir forystufé í landinu en það er í dag mjög bágborið því að mjög algengt er að bændur séu ekki í skýrsluhaldi fjárræktarfélaganna eða forystufénu er ekki hleypt inn á síður þess. Þessu komst ég að í skoðunarferð minni um landið en bændur líta svo á að þeir séu með ákveðinn hóp af lötu fé til ræktunar og vilja ekki hafa forystuféð þar með í útreikningum. Þessu þarf að breyta þannig að hægt sé að fylgjast með fjölda forystufjár í landinu. Hugsanlega má bæta við tölulykli í afurðaskýrsluhald fjárræktarfélaganna til að merkja við forystukindur og jafnframt bjóða upp á að þeim verði sleppt við útreikning afurða á búinu. Virkasta leiðin er hins vegar að skrá forystufé sérstaklega á forðagæsluskýrslur því að það eru skýrslur sem nákvæmastar eru um fjölda fjár í landinu hverju sinni því að allir eiga að vera skráðir hvort heldur þeir eru í fjárræktarfélagi eða ekki. Hugmyndir um þetta hafa verið reifaðar og vonast ég til að einhvers konar skráningarform verði tekið upp fyrir forystufé. Það yrði jafnframt styrkur fyrir Erfðanefnd að geta fylgst með framgangi forystufjárræktunarinnar í landinu hverju sinni eftir skýrslunum.

    Við val á hrútum á sæðingarstöðvar verður í dag að huga að skyldleika við fyrri hrúta en þrír þeir síðustu eru allir af sama svæðinu, þ.e. N-Þingeyjarsýslu. Bændur þar hafa því bent á að leita þurfi annars staðar næst og helst tel ég að í því sambandi ætti að leita til Vestfjarða en þar er stofn sem aðeins hefur verið blandaður með Formanni fyrir 10 árum. Vopnafjörður er einnig álitlegur til skoðunar fyrir væntanlegan sæðingahrút en þar hefur forystufé verið lengi ræktað, þó með blöndun frá N-Þingeyjarsýslu.

    Þar sem beitarbúskapur er orðinn lítill í dag miðað við það sem áður var, reynir orðið minna á forystuféð. Því skal hafa í huga við val á hrútum á stöð að gripurinn eða foreldrar hans hafi sannað sig sem alvöru forystukind. Ef einhver stuðningur yrði veittur við ræktun forystufjár, ættu bændur sem stunda beitarbúskap að ganga fyrir um hann, því að hjá þeim sést best hver árangurinn er.

    Önnur atriði sem hafa verður í huga við verndun forystufjár er að vernda erfðaefni í s.k. genabanka. Slíkt yrði mikið öryggisatriði fyrir forystufjárræktina og gæti einnig síðar hjálpað ef skyldleiki yrði of mikill í stofninum.

    Best er að ljúka þessari umfjöllun um varðveislu forystufjárins með því að benda á leiðir sem Halldór Pálsson sauðfjárræktarráðunautur nefndi á sínum tíma. Halldór taldi að engin þjóð nema Íslendingar myndu kalla það svæði þjóðgarð, sem engar jurtaætur, nema nagdýr og fuglar mættu koma í. Hann lagði því til að eðlilegt væri að reyna að varðveita í þjóðgarði sýnishorn af ýmislega litu sauðfé íslensku, og þá fyrst og fremst forystufé. Þessi tillaga Halldórs á fullan rétt á sér enn í dag og gaman væri ef hún yrði framkvæmd til kynningar og framdráttar þessum sérstaka stofni sem við Íslendingar einir getum státað af.

    5. Lokaorð.
    Komið hefur fram í þessari umfjöllun að forystufé er mest á þeim svæðum sem talið var í upphafi, þ.e. í N-Þingeyjarsýslu. Fleira forystufé er í landinu en talið var en flest til orðið af stofni N-Þingeyinga með tilkomu fjárskipta og sæðinga. Hægt er að hamla gegn of miklum skyldleika í stofninum með því að skipta örar um hrúta á sæðingarstöðvum. Vert er að skoða það vel. Meiri not af forystufé eru í dag en búist var við og sauðaeign kom mér á óvart. Áhugi fyrir því er síst minni nú en á liðnum árum og má sjá það á notkun Móblesa sem er nú á sæðingarstöð.

    Áður hefur verið nefnt að forystufé sé ekki til nema í íslenska fénu. Þær erlendu tilraunir þar sem reynt var að temja fé til forystu sýna að einhver þörf er fyrir slíkt fé. Eflaust mætti því flytja forystufé út á fæti vegna þessa fágæta eiginleika og hún Blesa í Kanada hefur vakið mikla athygli þar. Hún er líklega eina forystukindin í heiminum utan Íslands. Þó svo að á Grænlandi sé íslenskt fé er forystufé ekki þekkt þar en væri þó eflaust hagræði við þarlenda sauðfjárrækt.

    Frekari rannsókna væri þörf á forystufé og má þar t.d. nefna að rannsaka atferlið betur. Einnig væri áhugavert að gera vefjarannsóknir eins og farið er að gera í hrossum og bera forystuféð þannig saman við lata féð.

    Vonandi vekur þetta verk menn til umhugsunar um að mikilvægt er að varðveita þennan merka stofn sem býr í íslenska sauðfénu og forystufjárrækt verði stunduð hér á landi af áhuga og skynsemi um ókomin ár þrátt fyrir minnkandi not og þó að ræktun þess samræmist ekki þeim hefbundnu markmiðum sem farið er eftir í íslenskri sauðfjárrækt í dag.

    Þakkarorð
    Fjölmargir eiga þakkir skildar fyrir aðstoð við þetta verkefni og vil ég beina þeim til alls þess fólks sem lét mér í té upplýsingar og aðstoð á einn eða annan hátt, auk velvildar og gestrisni í hvívetna.

    Bændaskólanum á Hvanneyri og Landssamtökum sauðfjárbænda er jafnframt þakkaður veittur stuðningur.


Upplýsingaþjónusta landbúnaðarins, Bændahöllinni v/Hagatorg
IS-107 Reykjavík,, sími 563 0300
uppl@bi.bondi.is